Mikilvægt er að komið sé fram við börn af heiðarleika og hreinskilni, að þau búi ekki við lygi og þau þekki uppruna sinn. Þannig er mikilvægt að börn sem verða til með aðstoð tæknifrjóvgunar með sæði frá sæðisbanka hafi aðgang að upplýsingum um karlmanninn sem gaf sæði svo þau gætu orðið til eftir að þau verða sjálfráða.
Þetta segir Ástríður Stefánsdóttir, læknir og prófessor í siðfræði við Háskóla Íslands, en hún telur einnig hugsanlegt að endurskilgreina þurfi hugtakið faðir.
mbl.is hefur að undanförnu fjallað um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu og er þetta viðtal liður í þeirri umfjöllun.
Samkvæmt íslenskum lögum er hægt að velja um svokallaðan opinn eða lokaðan sæðisgjafa við tæknifrjóvganir hér á landi. Í fyrra tilvikinu geta börnin fengið upplýsingar um uppruna sinn þegar þau ná 18 ára aldri og verða sjálfráða en í seinna tilvikinu er það erfiðara eða færri upplýsingar liggja fyrir. Sömu reglur gilda um gjafaegg og gjafasæði.
Skiptar skoðanir eru á því hvort og þá hvernig eigi að greina börnunum sem verða til með þessum hætti frá uppruna sínum.
Að sögn Ástríðar er ekki komin mikil eða löng reynsla á því hvernig þessi börn, þ.e. börn einhleypra mæðra sem verða til með tæknifrjóvgun, bregðast við upplýsingunum eða hvort þau vilji leita að sæðisgjafanum eða jafnvel hálfsystkinum sínum þar sem aðeins eru sex ár frá því að einstæðum konum var heimilt að eignast barn með þessum hætti hér á landi.
Uppfært fimmtudaginn 22. janúar eftir að ábending barst
Þess má geta að áður en einhleypum konum var gert kleift að nýta sér tæknifrjóvgun eða ættleiðingu höfðu pör nýtt sér sæðisgjafa við tæknifrjóvgun. Þá höfðu einhleypar konur einnig farið erlendis í tæknifrjógvun.
Ástríður segir að einna helst sé hægt að álykta út reynslu barna hér á landi sem hafi verið ættleidd þegar hugað er að því hvernig börn einstæðu mæðranna muni bregðast við upplýsingum um uppruna sinn, fái þau þær.
„Við getum ekki alltaf litið á þetta sem börn, þetta verða fullorðnir einstaklingar. Við sem einstaklingar viljum þekkja okkar uppruna. Hvers vegna ættu þessi börn ekki vilja vita uppruna sinn eins og aðrir og hafa aðgang að honum,“ spyr hún.
Hún bendir á að í sumum löndum sé aðeins hægt að velja opinn gjafa en hér á landi er einnig hægt að kjósa lokaðan gjafa. „Ég er ekki viss um að öll börn muni birtast á tröppunum hjá gjafanum fái þau upplýsingarnar,“ segir hún og bendir á að þau vilji kannski frekar eiga möguleikann á því. Mikilvægt er að ekki sé um feluleik að ræða. „Maður á að geta verið stoltur af uppruna sínum,“ segir hún.
Sumar mæður sem eignast hafa barn einar með aðstoð tæknifrjóvgunar með sæði frá sæðisbanka kjósa að tala um „pabbann í Danmörku“ en aðrar tala til dæmis um góða manninn sem gaf efni svo barnið gæti orðið til.
„Það getur verið að barnið ætti að alast upp við að vita hver góði maðurinn er og það getur verið að við þurfum að greina á milli sæðisgjafa annars vegar og faðernis hinsvegar,“ segir Ástríður. „Það er manneskja báðum megin á ferlinum. Hún verður ekki bara til út frá einhverjum efnum, hún verður til vegna þess að það voru tvær manneskjur sem lögðu þetta til og hún á rétt á því að vita hvaða manneskjur þetta eru.“
Ástríður segir að í þessu tilviki sé sáðfruma ekki aðeins efnaformúla. „Ég held að við eigum ekki að klippa á þau tengsl að það sé bara karlmaður á bak við sáðfrumuna. Það getur verið að það þurfi að endurskoða hugtakið faðir í þessu umhverfi,“ segir Ástrúður.
Hugsanlegt er að tvær eða fleiri konur hér á landi hafi þegið sæði frá sama sæðisgjafa og eignast barn með þeim hætti. Þannig má segja að börnin séu skyld, þau hafa að hluta til sama erfðaefni.
En er þá hægt að tala um að börnin séu systkini?
„Ég er ekki viss um að við eigum að líta svo á að þessi börn séu systkini eða eitthvað svoleiðis. Þetta með erfðatengslin annars vegar og fjölskyldutengslin hins vegar er orðið mjög flókið í dag og þurfum við hugsanlega að fara að horfa á frá nýju sjónarhorni,“ segir Ástríður.
Hún nefnir að hægt sé að eiga systkini jafnvel þó ekki séu erfðatengsl þar á milli. „Þetta getur verið væntumþykja eða systkinatengsl. Maður getur einnig tengst einhverjum í gegnum erfðir sem maður lítur ekki á sem systkini sitt.“
Í sumum tilvikum gefur karlmaður marga tugi skammta til sæðisbanka. Þegar leitað er að gjafa í bankanum er meðal annars hægt að taka ákvörðun um val á gjafa eftir því hversu margir skammtar af sæði mannsins eru til í bankanum. Sá möguleiki er vissulega fyrir hendi að börn hér á landi eða í öðrum löndum hafi orðið til með aðstoð sama sæðisgjafa.
Ástríður telur mikivægt að fjöldi sæðisskammta sæðisgjafa, þ.e. hversu marga hann hefur gefið, eigi alltaf að liggja fyrir og viðskiptavinir verði að gera sér grein fyrir fjöldanum. „Manni finnst betra að þeir séu ekki of margir,“ segir hún.
„Það er ekki útilokað að það komi í ljós erfðasjúkdómur hjá einhverjum gjafa. Þá þarf að fara í gegnum hver hefur fengið sæði frá þessum tiltekna gjafa,“ segir Ástríður. Í þessum tilvikum er betra að ekki sé um að ræða margar konur sem hafi fengið sæðið.
Á heimasíðu Félags einstakra mæðra segir: Hjá sumum vakna spurningar um hvort hugsanlega hafi fleiri börn fæðst eftir sæðisgjöf sama gjafa. Hægt er að skrá númer gjafa hjá samtökunum Scandinavian Seed Siblings og komast þar í samband við aðra sem hafa fengið sæði frá ákveðnum sæðisbönkum.
Allar ábendingar um efni sem tengist málaflokknum eru vel þegnar en mbl.is mun halda áfram umfjöllum um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með aðstoð tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar.
Ábendingum er meðal annars hægt að koma á framfæri með því að senda tölvupóst á netfangið larahalla@mbl.is eða netfrett@mbl.is