Skilur ekki ákvörðun Framsóknar og flugvallarvina

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. UN Photo/Kim Haughton

„Ég skil ekki ákvörðun Framsóknar og flugvallavina í Reykjavík að skipa Gústaf Nielsson varamann í mannréttindaráð borgarinnar og tel það ekki samrýmast gildum flokksins að skipa mann sem talar fyrir mismunun eftir trú og kynferði.“

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson í færslu á Facebooksíðu sinni vegna ákvörðunar Framsóknar og flugvallarvina að kjósa Gústaf Níelsson varamann í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar.

„Að sögn Guðfinnu J Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa eiga
„allskonar raddir eigi að hljóma í mannréttindaráði borgarinnar“.

Þessi tiltekna rödd endurspeglar ekki gildi Framsóknarflokksins og að mér vitandi er hann ekki skráður í Framsóknarflokkinn og er flokksbundin sjálfstæðismaður að eigin sögn.

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins er mjög afdráttarlaus hvað varðar mannréttindi:

"Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs."

Skora ég á Framsókn og flugvallarvini að endurskipa varamann í ráðið og tryggja að sá einstaklingur endurspegli betur grunngildi flokksins.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert