„Þetta hefur verið skipulagt, þau vissu hvert þau áttu að fara,“ segir Ólafur Sturla Njálsson, kattaræktandi að Nátthaga í Ölfusi, þar sem 4 hreinræktuðum Bengalköttum var rænt í gærkvöldi. Þjófnaðurinn setur ræktun hans í uppnám því nú á hann ekkert fress til að rækta undan.
Tvær geldar læður og tvö ógeld fress voru tekin ásamt burðarbúrum en Ólafur er sannfærður um að ein kona hafi verið að verki ásamt vitorðsmanni því því ýmis ummerki var að finna í kringum skemmuna þar sem kettirnir voru geymdir bæði fótspor og hjólför en bíll þjófanna virðist hafa fest sig í innkeyrslunni að Nátthaga þar sem aðkoma er fyrir viðskiptavini gróðrarstöðvar sem Ólafur rekur. „Konan sem stal köttunum skildi eftir brjóstahaldara og svona þröngar blettatígursmynstraðar gráar og svartar buxur í hjólförunum til þess að ná gripi,“ segir Ólafur sem biðlar til almennings um að aðstoða hann við að endurheimta bengal kettina.
Brjóstahaldið sem er í stærð 34D er nú ásamt blettatígursbuxunum í vörslu lögreglu. Bengal kettir eru auðþekkjanlegir á því að vera með blettatígursmynstur í feldinum en þeir eiga uppruna sinn að rekja til villtra asískra hlébarðakatta. Hægt er að hafa samband við Ólaf í gegnum Facebook síðu Nátthaga.