Sá sem braust inn og stal fjórum hreinræktuðum köttum af bænum Nátthaga í Árborg í gær notaði brjóstahaldara og hlébarðamunstraðar buxur til að ná flóttabíl sínum úr snjóskafli.
Þetta kemur fram í færslu sem ræktandinn skrifar á facebooksíðu sína.
Ræktandinn, Ólafur Sturla Njálsson, segir að á meðan hann hafi verið á fundi í bænum gær hafi einhver komið og stolið tveimur fressum og tveimur læðum af bænum. Kettirnir eru af bengal-kyni en slíkir kettir eru afar sérstakir á litinn, líkir hlébörðum.
„Ég kom heim kl. 19 og fór rakleiðis niður í íbúðarhús að elda mat og sinna köttum og slappa af,“ segir Ólafur í færslunni á Facebook, sem skrifuð er í nótt. „Um eittleytið í nótt fór ég með einn kött upp í aðstöðuhús til að skipta á læðum og sækja aðra heim í hús. Ég var kominn hálftvö um nóttina þangað að sinna köttunum mínum fjórum sem þar dveljast í vetur.“
Ólafur segist hafa komið að skemmunni og hafi þegar orðið ljóst að einhver hafi verið þar á ferð.
„Ég fer upp á loft þar sem ég er með upphitað 40 fermetra kattarými og sé þá að það er búið að brjóta upp læsta hurðina með skóflu.“
Ólafur telur ljóst að viðkomandi hafi ekki haft mikla krafta. Hann segir að sá sem braust inn hafi haft kettina á brott með sér og líklega haft eigið búr með í för því aðeins eitt búr ræktandans var horfið. Það er ekki nógu stórt fyrir alla fjóra kettina.
Lögreglan kom á svæðið og tók skýrslu.
„Í snjónum eru spor eftir eina skógerð, flatur botn ca 38-39 að stærð og viðkomandi hefur verið einn á ferð. Viðkomandi festi bíl sinn í snjónum á bílastæðinu og kunni greinilega ekki til verka, setti dökkbláan brjóstahaldara, stærð 34D, undir annað dekkið og þunnar, gráar, leopardspotted buxur með rennilásum á hliðunum undir annað dekkið, stærð small.“
Ólafur telur því ljóst að kona hafi verið á ferð. „Mig rámar í að hafa séð þessar buxur á einhverri konunni sem hefur komið hingað að skoða ketti.“