Fjórum hreinræktuðum köttum stolið

Svona líta Bengal-kettir út.
Svona líta Bengal-kettir út. mbl.is/Jim Smart

Brotist var inn í húsnæði í Ölfusi í gærkvöldi eða nótt og fjórum hreinræktuðum bengal-köttum stolið. Þjófnaðurinn uppgötvaðist um klukkan 1.30 í nótt. Ekki er vitað hver eða hverjir stóðu að verki en dyr að vistarverum dýranna voru spenntar upp.

Lögreglan á Suðurlandi getur ekki staðfest að farið hafi verið inn í húsnæðið gagngert til að stela köttunum en segir um sérkennilegan þjófnað að ræða. Ekki sé hlaupið að því að hafa á brott fjóra ketti, en þeir voru misgamlir.

Uppfært kl. 07.17:

Samkvæmt RÚV var köttunum stolið af bænum Nátthaga, þar sem Ólafur Sturla Njálsson hefur ræktað bengal-ketti um árabil. Um var að ræða tvö ræktunarfress og tvær geldar læður. Hefur RÚV eftir Ólafi að þjófnaðurinn hafi verið skipulagður, þar sem þjófarnir vissu hvar kettina var að finna. Ólafur segir einnig að hinir óprúttnu hafi að öllum líkindum fest bíl sinn á leið frá bænum, en í innkeyrslunni hafi fundist fatnaður sem þeir hafi líklega ekið yfir til að losa sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert