Kona sem fannst látin í heimahúsi í Reykjavík í september lést af mannavöldum. Þetta staðfestir Kristján Ingi Kristjánsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Eiginmaður konunnar, sem er 29 ára gamall, sætir öryggisgæslu á réttargeðdeild Landspítalans á Kleppi en hann hefur glímt við andleg veikindi. Maðurinn er grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konunnar þannig að hún hlaut bana af.
Að sögn Kristjáns staðfestu lokaniðurstöður krufningar á konunni að andlátið hefði verið að mannavöldum og þrengt hefði verið að öndunarvegi konunnar.
Lögregla höfuðborgarsvæðisins hefur lokið rannsókn á málinu og sent það ríkissaksóknara. Þar verður tekin ákvörðun um útgáfu ákæru, hvort málið verði fellt niður eða sent lögreglu að nýju til frekari rannsóknar.