Þurfa úrræði fyrir grunnskólanema með fíknivanda

Sviðsett mynd.
Sviðsett mynd. mbl.is/ Kristinn

Brýnt er að hægt sé að taka á vanda grunnskólanema sem leiðst hafa út í fíkniefnanotkun, með uppbyggilegum hætti. Þetta segir Þórður Kristjánsson, skólastjóri í Seljaskóla en hann segir hafa komið upp tilfelli þar sem nemendur hafa reykt kannabis á skólatíma.

„Þegar þannig er komið [að nemendur séu í neyslu á skólatíma] vísum við þeim yfirleitt úr skóla eftir þeim vinnureglum sem okkur eru settar. En þá er ekkert úrræði sem tekur við þeim,“ segir Þórður.

Á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í gær lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að komið verði á fót sérúrræði fyrir grunnskólanema með áfengis- og vímuefnavanda en tillagan mun upprunalega komin frá skólastjórum í Árbæ og í Breiðholti.

Þórður segir mikilvægt að skólatengd úrræði séu í boði fyrir nemendur með fíknivanda svo þau flosni ekki upp úr námi en eins að í boði séu meðferðarúrræði í samstarfi við fagaðila.

„Það er engin hjálp í því að henda þeim bara út. Margir af þessum krökkum eru að stíga sín fyrstu skref inn á þessa óvissubraut. Það er oft á tíðum hægt að grípa inn í og hjálpa þeim en það að setja þau bara út úr skóla er í rauninni ekkert úrræði. Þá er bara verið að henda þeim út á gaddinn.“

 Telur nemendur hóta öðrum í auknum mæli

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu einnig fram fyrirspurn á fyrrnefndum fundi þar sem farið var fram á að ráðið væri upplýst um stigmagnandi ofbeldisvanda í skólum borgarinnar. Einna helst hefur verið rætt um Hagaskóla í því samhengi þar sem nemendur skólans hafa mátt þola hótanir og ógnanir samnemenda sinna og unglinga utan við skólann en Þórður segir vandann sé þó ekki einangraður við Vesturbæinn.

„Þetta með að nemendur séu að hóta öðrum nemendum er eitthvað sem að við könnumst við og hefur komið upp hér eins og sennilega víðast hvar annars staðar þar sem unglingarnir eru. En ég er ekki frá því að hótanir hafi aukist undanfarið þó vímuefnanotkun fari upp og niður,“ segir Þórður.

Þórður segir unglinga innan skólans oft nota hópa eða einstaklinga utan skólans sem vopn og hóta öðrum með þeim sama hvort fótur sé fyrir því að hætta stafi af þeim eða ekki. Sömuleiðis tekur hann fram að þegar svona mál komi upp sem hægt er að tengja sannanlega við einhverja aðila sé lögregla alltaf kölluð til. Hann segir þó mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir.

„Ég held að umræðan um þetta sé mjög góð og að foreldrar þurfi að vera mjög vakandi fyrir því hvað þetta getur eyðilagt fyrir börnum. Þau eru auðvitað hrædd og óörugg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert