Þarf aldrei að deila syninum

Sonur Evelyn kom í heiminn í ágúst á síðasta ári.
Sonur Evelyn kom í heiminn í ágúst á síðasta ári. Úr einkasafni.

Hún hafði lokið háskólanámi, hafði búið í útlöndum, var búin að leika sér og njóta lífsins. Hún var 27 ára og fannst hún vera tilbúin að eignast barn. Í dag er Evelyn Adolfsdóttir tæplega þrítug einstök móðir og nýtur þess að kynnast syni sínum sem kom í heiminn ágúst á síðasta ári.

Evelyn á að baki fjórar tæknisæðingar hjá Art Medica. Hún er þakklát fyrir litla drenginn sinn og segist vel geta hugsað sér að eignast annað barn með sama hætti. Hún viðurkennir að stundum væri gott að geta deilt ábyrgðinni en er meðvituð um ákvörðunina sem hún tók, að eignast barn ein með aðstoð tæknifrjóvgunar.

mbl.is hefur að undanförnu fjallað um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með tæknifrjóvun eða ættleiðingu. Með þessu viðtali er þeirri umfjöllun haldið áfram. 

Vildi vera hraust ung móðir

„Ég vissi ekki að það mætti eignast barn með þessum hætti fyrr en ég rak augun í það þegar ég var að vafra um netið,“ segir Evelyn í samtali við blaðamann mbl.is. „Ég hugsaði þetta bara þannig að ég væri tilbúin, mig langaði ekki að bíða. Ég átti ekki maka og vildi ekki bíða lengur. Þó að ég sé ekki gömul, þá ég er ekki svo ung.“

Evelyn leit þannig meðal annars á það sem kost að vera hraust móðir og stöðvaði makaleysið hana ekki. „Ég er svo sjálfstæð og hef verið svo mikið með börn. Fyrir mér var ekki fyrirstaða að gera þetta án maka.“

Það var í desember árið 2012 sem Evelyn tók ákvörðun um að fara í tæknifrjóvgun og fékk hún viðtal þremur vikum síðar. Vel var tekið á móti henni hjá Art Medica og fékk hún góða þjónustu hjá læknunum. Hún segir að sér hafi þó þótt húsnæðið dálítið opið. Á veggjunum hanga skjöl þar sem viðskiptavinir eru minntir á að halda trúnað um það sem þeir sjá og heyra hjá stofunni.

„Ég hugsaði samt: þarna koma allir í sama tilgangi. Ég ákvað líka strax að ég ætlaði að vera mjög opin með þetta,“ segir Evelyn.

Bíður ein heima í tvær vikur

Evelyn á að baki fjórar tæknisæðingar. Hún varð ófrísk eftir aðra og fjórðu tæknisæðinguna en missti fóstur á níundu viku eftir aðra tæknisæðinguna. Biðin eftir niðurstöðunni, eftir jákvæða þungunarprófinu, var því ekki aðeins erfið, heldur fylgdi missinum mikið álag, sorg og auknar áhyggjur á seinni meðgöngunni.

„Þú tekur ákvörðun um að gera þetta ein og þá bíður þú auðvitað ein heima þessar tvær vikur frá því að þú ferð í uppsetningu og þangað til þú veist hvort það kemur jákvætt eða neikvætt. Þó að þú eigir fjölskyldu og vini sem standa með þér, þá ertu auðvitað bara ein í þessu,“ segir Evelyn. Hún kvartar samt sem áður ekki. „Þetta er ákvörðun sem þú tekur, maður veit það fyrirfram.“

Eftir fjórðu tæknisæðinguna varð Evelyn ófrísk á ný. Hún segir að missirinn hafi fylgt henni í gegnum meðgönguna. „Það var alltaf ákveðin hræðsla til staðar, þegar maður er búinn að sjá einu sinni að þetta gekk ekki,“ segir hún.

Mikilvægt að fá stuðning frá upphafi

Fjölskylda, vinir og aðrir sem Evelyn sagði fréttir af þunguninni tóku henni af mikilli gleði og tilhlökkun. „Ég fékk jákvæð viðbrögð alls staðar. Ég á stóra fjölskyldu, öllum fannst þetta frábært,“ segir Evelyn.

Sjálf heyrði hún ekki af neikvæðum ummælum um þungunina en heyrði útundan sér að hún væri svo ung að hún þyrfti ekki að verða þunguð með þessum hætti, þetta væri bara vitleysa. „Ég heyrði þetta bara útundan mér, fólk sagði þetta ekki við mig,“ segir Evelyn.

Fjölskylda Evelyn vissi af ákvörðun hennar frá byrjun og fylgdi henni þannig í gegnum allt ferlið. „Mér fannst það betra, þá fær maður stuðning frá upphafi. „Það er líka gott að fá spurningar um hvernig þetta gengur, hvenær maður fari næst í uppsetningu,“ segir Evelyn. „Þú ert það mikið ein í þessu, það er gott að deila einhverju.“

Þegar nokkrar vikur voru liðnar af meðgöngu hennar sagði hún fleirum frá en tók ekki endilega fram að hún hefði gengist undir tæknifrjóvgun.

Finnur fyrir einverunni á nóttunni

Lífið hefur gengið vel eftir að drengurinn kom í heiminn og er hann ljúfur og góður að sögn móðurinnar. Evelyn segist aðallega finna fyrir því á nóttunni að hún sé ein með soninn. „Ef þú gerir ekki það sem þarf að gera, þá gerir það enginn. Ég viðurkenni það alveg, það væri fínt að deila ábyrgðinni,“ segir hún.

„En svo finnst mér ég ekki geta sagt neitt þar sem ég ákvað að gera þetta ein, ég vissi það allan tímann. Það væri ótrúlega notalegt að vera ekki með alla ábyrgðina en ég hef góðan stuðning.“

Hún segist stundum reka augun í ummæli kvenna sem velti fyrir sér hvernig einstæðar mæður fari að því að hugsa einar um barnið eða börnin þegar þær eru einar heima með barnið eða börnin eina helgi. „Þá hugsa ég: kannski er maður að gera eitthvað sem er krefjandi,“ segir Evelyn.

Á skilið að maður segi satt og rétt frá

Þegar árin líða eru líkur á því að drengurinn muni spyrja um föður sinn. „Hann á skilið að maður segi satt og rétt frá. Margar tala um að góður maður hafi gefið frumu og útskýra tæknifrjóvgunina á þann hátt,“ segir Evelyn.

Hún hefur aftur á móti ekki tekið ákvörðun um hvernig hún hyggst útskýra málið þegar að því kemur.

Sumar kjósa aftur á móti að tala um pabbann sem er þá frá öðru landi. „Í raun á hann pabba, hann gæti átt hálfsystkini á Íslandi. Ég ætla að vera mjög hreinskilin, þetta er yndislegur moli sem kom í heiminn,“ segir Evelyn.

Þarf aldrei að deila honum á jólunum

Aðspurð hvort hún geti hugsað sér að eignast annað barn með þessum hætti svarar Evelyn játandi. „Ég hef alveg hugsað um það, ég skal alveg viðurkenna það,“ segir hún. „Fyrir mér skiptir ekki máli að fá sæði frá sama gjafa, en ég myndi örugglega kanna málið.“

„Ég á hann bara ein, þarf aldrei að deila honum á jólunum eða missa af neinu. Það er kannski eigingjörn tilhugsun. Í fullkomnum heimi hefði ég viljað eiga mann en maður lætur það ekki stoppa sig. Maður vill líka bara nýta tæknina, þetta eru fallegir einstaklingar sem verða til,“ segir Evelyn að lokum.

All­ar ábend­ing­ar um efni sem teng­ist mála­flokkn­um eru vel þegn­ar en mbl.is mun halda áfram umfjöllum um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með aðstoð tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar.

Ábendingum er meðal ann­ars hægt að koma á fram­færi með því að senda tölvu­póst á net­fangið lara­halla@mbl.is eða net­frett@mbl.is 

Evelyn heyrði að hún væri svo ung að hún þyrfti …
Evelyn heyrði að hún væri svo ung að hún þyrfti ekki að verða þunguð með þessum hætti, mbl.is/Ómar Óskarsson
Evelyn leit þannig meðal annars á það sem kost að …
Evelyn leit þannig meðal annars á það sem kost að vera hraust móðir og stöðvaði makaleysið hana ekki mbl.is/Ómar Óskarsson
Evelyn varð ófrísk eftir aðra og fjórðu tæknisæðinguna en missti …
Evelyn varð ófrísk eftir aðra og fjórðu tæknisæðinguna en missti fóstur á níundu viku eftir aðra tæknisæðinguna. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka