Hyggst ekki kæra Björgvin

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson. mbl.is/Golli

Hrepps­nefnd Ása­hrepps og Björg­vin G. Sig­urðsson, fyrr­ver­andi sveit­ar­stjóri sveit­ar­fé­lags­ins, hafa gert með sér sam­komu­lag um lykt­ir mála vegna brott­hvarfs hans úr starfi. Björg­vini var sagt upp störf­um fyr­ir viku vegna fjár­drátts. Hann hef­ur viður­kennt að hafa ráðstafað fé í eigu sveit­ar­fé­lags­ins í eig­in þágu án heim­ild­ar en hafnað því að um fjár­drátt hafi verið að ræða.

Fundað var í hrepps­nefnd Ása­hrepps um málið á þriðju­dag­inn þar sem fjallað var um starfs­lok Björg­vins. Þar var odd­vita sveit­ar­fé­lags­ins falið að gera til­raun til þess að ljúka mál­inu með sam­komu­lagi. Sam­komu­lagið sem gert var ger­ir ráð fyr­ir að Björg­vin end­ur­greiði að fullu um­rædda fjár­muni, sem hann hef­ur þegar gert sam­kvæmt því, og að eng­ir eft­ir­mál­ar verði vegna máls­ins af hálfu hvor­ugs aðila. Sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing hrepps­nefnd­ar Ása­hrepps og Björg­vins var birt á vefsíðu sveit­ar­fé­lags­ins í dag.

Sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing hrepps­nefnd­ar Ása­hrepps og Björg­vins:

„Á fundi hrepps­nefnd­ar Ása­hrepps þann 20. janú­ar sl. samþykkti hrepps­nefnd Ása­hrepps að fela odd­vita, í sam­ráði við lög­mann sveit­ar­fé­lags­ins, að gera til­raun til þess að ljúka mál­inu með sam­komu­lagi við fyrr­ver­andi sveit­ar­stjóra Ása­hrepps. Í kjöl­farið gerðu Björg­vin G. Sig­urðsson og Ása­hrepp­ur með sér sam­komu­lag um fjár­hags­legt upp­gjör vegna máls­ins, sem öðrum þræði fól í sér nán­ari út­færslu á fyrri samn­ingi um starfs­lok Björg­vins.

Þá viður­kenndi Björg­vin að hafa brotið gegn starfs­skyld­um sín­um með því að hafa án feng­inn­ar heim­ild­ar ráðstafað fjár­mun­um úr sveit­ar­sjóði Ása­hrepps. Laun Björg­vins vegna vinnu í janú­ar 2015 og upp­safnað or­lof hans gengu til greiðslu krafna Ása­hrepps og þá féll Björg­vin frá rétti til launa í upp­sagn­ar­fresti. Björg­vin hef­ur þegar end­ur­greitt hreppn­um að fullu all­ar kröf­ur. Sam­komu­lagið fel­ur í sér end­an­leg­ar mála­lykt­ir vegna starfs­lok­anna af hálfu beggja aðila og mun hvor­ug­ur hafa uppi frek­ari kröf­ur á hend­ur hinum né frek­ari aðgerðir vegna máls­ins.

Bæði hrepps­nefnd Ása­hrepps og Björg­vin G. Sig­urðsson hafa lagt áherslu á að leysa málið með hags­muni hrepps­ins í huga, sem end­ur­spegl­ast í því sam­komu­lagi sem gert hef­ur verið. Aðilar eru sátt­ir við að hafa náð fullnaðarlúkn­ingu í mál­inu og óska hvor öðrum góðs geng­is í framtíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert