17 konur sóttu um orlof í 9 mánuði

Einhleypar konur sem eignast barn með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu fá …
Einhleypar konur sem eignast barn með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu fá níu mánuði í fæðingarorlof. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Styrmir Kári

Einhleypar konur sem eignast barn með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu eiga rétt á níu mánaða fæðingarorlofi. 

Lögunum var breytt í byrjun árs 2013 en áður fengu þær sex mánuði. Þegar par eignast barn á hvort foreldri að jafnaði rétt á þremur mánuðum í fæðingarorlof og deila foreldrarnir síðan þremur mánuðum. 

mbl.is hefur að undanförnu fjallað um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með tæknifrjóvun eða ættleiðingu. Með þessari grein er þeirri umfjöllun haldið áfram.

Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði sóttu sex einhleypar konur, sem gengist höfðu undir tæknifrjóvun og ein einhleyp kona sem eignast hafði barn með ættleiðingu, um fæðingarorlof  í níu mánuði árið 2013.

Á síðasta ári sóttu aftur á móti 16 einhleypar konur um fæðingarorlof í níu mánuði vegna fæðingar barna sem urðu til með tæknifrjóvgun og ein einhleyp kona vegna ættleiðingar.

Árið 1999 var lögfest sú undantekningarregla að einhleypir einstaklingar geti ættleitt barn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Árið 2008 var lögum um tæknifrjóvgun breytt á þann veg að einhleypar konur öðluðust rétt til tæknifrjóvgana.

Árið 2012 var lögum um fæðingarorlof breytt þannig að einhleypar mæður sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun eða einhleypir foreldrar sem hafa ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur eiga rétt á fullu níu mánaða fæðingarorlofi.

Standa vörð um réttindi kvennanna

Félagið Einstakar mæður var stofnað í febrúar árið 2013 og hefur því verið starfandi í tæplega tvö ár. Um er að ræða félag kvenna sem hefur valið að eignast börn upp á eigin spýtur, með tæknifrjóvgun eða í gegnum ættleiðingu, og kvenna sem hafa hafið tæknifrjóvgunar- eða ættleiðingarferli einar síns liðs, líkt og kemur fram á heimasíðu félagsins.

Megintilgangur félagsins er að standa vörð um réttindi einhleypra kvenna sem velja að eignast barn/börn með gjafakynfrumum eða gegnum ættleiðingu og barna þeirra.

Ennfremur að sinna fræðslustarfi um stöðu og hagsmuni einhleypra kvenna sem eiga börn getin með gjafakynfrumum eða gegnum ættleiðingu og skapa vettvang fyrir samræðu og samstarf.

Í félaginu eru 45 konur og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt frá stofnun félagsins. Flestar kvennanna voru á fertugsaldri þegar þær eignuðust börn sín en þó eru einnig nokkrar sem eignuðust barn yngri en þrjátíu ára og eldri en fjörtíu ára. 

Allar ábendingar um efni sem tengist málaflokknum eru vel þegnar en mbl.is mun halda áfram umfjöllum um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með aðstoð tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar.

Ábendingum er meðal annars hægt að koma á framfæri með því að senda tölvupóst á netfangið larahalla@mbl.is eða netfrett@mbl.is 

Á síðasta ári sóttu 16 einhleypar mæður um fæðingarorlof í …
Á síðasta ári sóttu 16 einhleypar mæður um fæðingarorlof í níu mánuði vegna fæðingu barna sem urðu til með tæknifrjóvgun og ein einhleyp móðir vegna ættleiðingar. Ásdís Ásgeirsdóttir
Megintilgangur félagsins er að standa vörð um réttindi einhleypra kvenna …
Megintilgangur félagsins er að standa vörð um réttindi einhleypra kvenna sem velja að eignast barn, eitt eða fleiri, með gjafakynfrumum eða gegnum ættleiðingu og barna þeirra Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert