Sagði ekki að þjóðin þyrfti að læra af lekamálinu

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvað hann hefði átt við, í ljósi alls þess sem liðið er, hvað nákvæmlega þjóðin hefði átt að læra af lekamálinu, eins og hann sagði að hefði verið haft eftir honum í Morgunblaðinu.

Sigmundur Davíð byrjaði svar sitt á að taka fram að forsendur spurningarinnar væru rangar, en við það sprakk Árni Páll Árnason úr hlátri, og sagðist Sigmundur Davíð ánægður með að geta loksins skemmt honum.

Forsætisráðherra sagðist ekki vita til þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, hefði á neinn hátt haft aðkomu að því að leka upplýsingum úr ráðuneytinu. „Ég sagði aldrei að þjóðin þyrfti að læra af málinu, þó svo að það hafi verið fyrirsögn í Morgunblaðinu.“ Hann sagði hins vegar að menn væru komnir inn á vafasamar brautir ef þeir væru farnir að líta á sjálfa sig sem talsmenn þjóðarinnar, eins og hann sagði vinstrimönnum tamt.

Björn Valur spurði forsætisráðherra enn, nú einnig hvort lærdómurinn væri kannski sá að við ættum ekki að trúa alltaf á samsæriskenningar, þó svo að þær kunni að hljóma vel. Sigmundur Davíð ítrekaði hins vegar að það væri ekki rétt sem þingmaðurinn segði, að þjóðin ætti að læra af lekamálinu, „og ég ítreka að ég veit ekki til þess að Hanna Birna hafi lekið upplýsingum eða komið að því að leka upplýsingum úr innanríkisráðuneytinu“.

Þjóðin læri af lekamálinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka