Sonur Svövu Svanborgar Steinarsdóttur er tæplega fjögurra ára gamall. Hann varð til eftir að Svava fór í glasafrjóvgun hjá Art Medica. Drengurinn á rúmlega tvítuga systur en Svava veit einnig um 24 börn sem urðu til með hjálp sama sæðisgjafa og sonur hennar, hálfsystkini hans og halda foreldrar þeirra sambandi í gegnum lokaðan hóp á Facebook.
Svava er rúmlega fertug. Hún eignaðist sitt fyrsta barn um tvítugt en síðan liðu átján ár þar til hún eignast seinna barnið. Svava fór í gegnum fimm tæknisæðingar hjá Art Medica og tvær glasafrjóvganir áður en lífið kviknaði en áður hafði hún einnig velt fyrir sér að nýta sér ættleiðingu.
mbl.is hefur að undanförnu fjallað um málefni einhleypra foreldra sem vilja eða hafa eignast börn með tæknifrjóvgun, ættleiðingu eða með hjálp staðgöngumóður. Með þessu viðtali er þeirri umfjöllun haldið áfram.
Sæðisgjafinn sem Svava fékk sæði frá er svokallaður lokaður gjafi með víkkaðan prófíl. Þá er upplýsingar um fjölskyldu hans og áhugamál aðgengilegar, hægt er að sjá niðurstöðu persónuleikaprófs, viðtal við gjafann og myndir af honum frá barnsaldri ásamt fleiru. Sonur Svövu mun aftur á móti aldrei fá nafn gjafans og getur þar af leiðandi ekki haft uppi á honum þegar hann nær átján ára aldri.
„Ég gerðist meðlimur í hópi á Facebook fyrir egggjafa, sæðisgjafa, foreldra og gjafabörn og komst að því að margir leita að hálfsystkinum sínum,“ segir Svava í samtali við mbl.is en þar er hægt að skrá sig á skjöl í hópnum og óska eftir að komast í samband við systkini barnanna.
Svava varð sér út um númer sæðisgjafans hjá Art Medica og skráði númer drengsins á vefsíðuna Donorsibling Registry. „Ég hugsaði með mér að kannski gæti ég hitt á eina eða tvær sem væru með sama gjafa. Þá kom strax upp eitt nafn, kona í Svíþjóð sem á dreng sem er einu ári eldri en sonur minn,“ segir Svava.
Í kjölfarið sendi hún konunni skilaboð og fékk skömmu síðar svar. Móðirin í Svíþjóð vildi vita hvort Svava væri tilbúin til að vera í hóp sem stóð saman af foreldrum nítján barna sem urðu til með hjálp sama gjafa og drengur Svövu. „Ég var gjörsamlega orðlaus,“ segir Svava og vildi svo sannarlega vera með.
Hópurinn var stofnaður árið 2012. Drengurinn hennar var tuttugasta barnið í hópnum fyrir tæpu ári en í dag eru 25 börn í hópnum. Fjölskyldurnar koma frá fjórum löndum; Noregi, Svíþjóð, Íslandi og Danmörku. Hópurinn hefur hist tvisvar með börnin og tók Svava þátt í seinna skiptið, í Árósum síðastliðið sumar. Stefnt er að því að hittast í Kaupmannahöfn í sumar.
„Þetta var mjög skemmtilegt. Við erum allar í sömu stöðunni og það var gaman að horfa og kíkja hvort það væri eitthvað sameiginlegt með börnunum okkar. Mér fannst ég geta séð ákveðin líkindi, eitthvað sameiginlegt með drengnum mínum og nokkrum börnum í hópnum,“ segir Svava og bætir við að mörg barnanna í hópnum séu með sama munnsvip og svipað nef. „Þau eru samt afar ólík öll saman, þau eiga öll mismunandi mæður.“
„Ég hugsaði með mér, hann er með lokaðan gjafa, hann mun ekki geta fundið föður sinn en hann getur fundið hálfsystkin. Ég vildi gefa honum það tækifæri en mér datt aldrei í hug að hann myndi fá svona mörg tækifæri,“ segir Svava.
Sonur Svövu var þriggja ára þegar mæðginin hittu hópinn í Danmörku síðastliðið sumar og útskýrði hún því ekki fyrir honum hvaða börn hann væri að hitta, heldur aðeins að þau ætluðu að hitta fullt af börnum sem hann gæti leikið við.
„Allir í hópnum eru hreinskilnir við börnin sín um að þau séu gjafabörn. Þau vita öll að þau eru gjafabörn en það eru bara þau eldri sem hafa skilning á því,“ útskýrir Svava. Nokkur barnanna í hópnum hittast reglulega en þau búa á sama svæði.
Einhleypar konur í Danmörku hafa getað nýtt sér tæknifrjóvgun í heimalandinu mun lengur en einhleypar konur á Íslandi. Svava segir að mikið hafi verið fjallað um málefni barnanna þar í landi og í kjölfar sjónvarpsumfjöllunar á síðasta ári bættust tvær mæður og fjögur börn í hópinn.
Svava kynnti sér málið vel og vandlega áður en hún ákvað að nýta sér tæknifrjóvgun. Hún hefur lesið ýmis viðtöl og greinar um málefnið og segir sum barnanna vilja vita meira um gjafann seinna meir en flest börnin séu spennt að finna hálfsystkini sín.
Börnin í hópnum eru fædd á árunum 2009 til 2013. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda skammta sem gjafinn hefur gefið. Þó er til dæmis vitað að fyrir 1. mars 2012 var heimilt að nýta sæði frá hverjum gjafa fyrir 25 fjölskyldur í Danmörku. Búið er að loka á gjafann þar sem búið er að nýta skammta frá honum fyrir þennan fjölda. Í hópnum eru 16 fjölskyldur í Danmörku.
Sæði frá gjafanum eru svo einnig seld til annarra landa og því ekki svo auðvelt átta sig á fjölda barnanna sem hafa orðið til með hjálp hans. „Það geta dúkkað upp hálfsystkini hér og þar í heiminum,“ segir Svava.