Rjúka fór úr sjónvarpi formanns VG

Katrín Jakobsdóttir formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Ómar Óskarsson

Reykur steig upp úr sjónvarpstæki Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, í lok síðustu viku. Katrín kennir ofnotkun um en hún var í viku veikindafríi og fylgdist af athygli með sjónvarpsdagskránni.

„Jæja. Þá er ég mætt aftur til þings eftir viku veikindafrí, búin að fylgjast með sjónvarpsdagskránni af athygli í heila viku og hafði þar af leiðandi mörgu að miðla til félaga minna á þingi,“ skrifar Katrín á Facebook-síðu sína.

„Raunar steig reykur upp úr sjónvarpstækinu vegna þessarar ofnotkunar undir vikulokin og gaf það upp öndina í kjölfarið sem var líka áhugavert að fylgjast með. Við vorum heppin að vera vakandi og gátum brugðist við hratt og örugglega,“ skrifar Katrín.

Í samtali við mbl.is segir Katrín að hún hafi verið að horfa á sjónvarpið ásamt syni sínum, þriggja ára, þegar rjúka fór úr því.  „Við vorum að horfa á hinn merka þátt Hvolpasveitina,“ segir Katrín og að uppákoman hafi verið mjög dramatísk. Spurð hvort að syninum hefði ekki verið brugðið segir Katrín: Hann var aðallega ósáttur við að geta ekki klárað þáttinn. Þessi börn láta sér nú ekki bregða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert