Fátt var um svör hjá Hannesi Smárasyni við aðalmeðferð á svokölluðu Sterling-máli sem hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann er ákærður fyrir fjárdrátt í málinu fyrir að hafa látið millifæra 2,87 milljarða króna af reikningi í eigu FL Group yfir á reikning fjárfestingafélagsins Fons 25. apríl 2005. Hannes var þá starfandi stjórnarformaður FL Group. Hann lýsti sig saklausan af ákærunni.
Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari bar undir Hannes ýmis skjöl og tölvupósta tengd málinu frá þeim tíma þegar umrædd millifærsla átti sér stað. Mörg skjalanna voru undirrituð af honum og margir tölvupóstarnir úr hans netfangi. Svör Hannesar voru nær undantekningarlaust á þann veg að hann kannaðist ekki við skjölin, vissi ekkert hvernig þau væru tilkomin og myndi ekki eftir tölvupóstunum. Bar hann því við að nær tíu ár væru liðin frá þeim tíma sem þeir hafi verið skrifaðir og hann hafi átt í gríðarlega miklum samskiptum í gegnum tölvupóst á þessum tíma.
„Þetta er afar líkt minni undirskrift en ég man ekkert eftir að hafa undirritað þetta,“ var svar Hannesar þegar borinn var undir hann skjal sem veita átti honum prókúru til þess að ráðstafa fjármunum af reikningi FL Group sem málið snýst um, reikningi 401301 í Kaupþingi í Lúxemburg. Hafnaði hann því alfarið að hafa komið að millifærslu eins og þeirri sem rætt væri um. Sömu svör fengust vegna fleiri skjala með hans undirskrift.
Ekkert benti ennfremur til þess að hans sögn að slík millifærsla hefði yfri höfuð átt sér stað. Hafnaði hann því sömuleiðis að til hafi staðið að FL Group og Fons færu í samstarf um fjárfestingar í Sterling-lággjaldaflugfélaginu. Gögn sem saksóknari lagði fram í þeim efnum sagðist Hannes ekki kannast við og jafnvel þó slíkt kynni að hafa verið rætt hefði ekki orðið af því.
Hannes sagðist ennfremur ekki kannast við skjöl sem saksóknari kynnti til sögunnar og sagði lögreglu hafa haldlagt í húsleit á þáverandi heimili hans. Hannes sagðist ekki geta tjáð sig um það hvort skjölin hefðu fundist á heimili hans enda væri langt síðan húsleitin ætti að hafa farið fram, hann verið erlendis á þeim tíma og húsleitin verið gerð í tengslum við annað mál.