„Ég vildi bara tékka hvort þú hefðir hengt þig“

Margrét Ásta segist finna fyrir miklum stuðningi eftir að hafa …
Margrét Ásta segist finna fyrir miklum stuðningi eftir að hafa sagt sögu sína. Ljósmynd/ Margrét Ásta

Leikkonan Margrét Ásta er önnur tveggja ungra kvenna sem sýndar eru fáklæddar og með kynferðislegum hætti í myndböndum kanadísks þáttagerðarmanns sem birtust í fyrradag og mbl.is fjallaði um í gær. Myndböndin voru birt þvert gegn vilja stúlknanna en hafa nú bæði verið tekin út af YouTube þar sem þau voru birt.

Margrét var auðþekkjanleg í myndbandinu enda gerði maðurinn engar tilraunir til þess að koma í veg fyrir að stúlkurnar þekktust af myndböndunum. Í samtali við mbl.is segir Margrét það vera helstu ástæðu þess að hún tjáði sig um málið við ýmsa miðla, m.a. Nútímann, strax eftir að myndbandið af henni var tekið út.

„Mér líður mun betur eftir að það fór út af. Í gær var ég hrædd við að tala við fjölmiðla á meðan þetta var enn inni af því að þá gæti fleira fólk séð þetta útfrá fréttunum,“ segir Margrét. Hún segir sitt fyrsta skref hafa verið að fá þá vini sína sem voru búnir að sjá myndbandið til þess að tilkynna það til YouTube fyrir óviðeigandi efni og í kjölfarið tóku stjórnendur myndbandasíðurnar það út.

 „Þegar þetta var komið út af síðunni vildi ég segja mína hlið því þá var fullt af fólki búið að sjá þetta myndband og byrjað að tala um það.“

Margrét segir alveg ljóst að hún hefði aldrei geta látið sem ekkert væri eða falið sig frá efninu.

„Ég fékk myndband og myndir af myndbandinu frá fyrrverandi kærasta. Vinir mínir sögðu mér að allir væru búnir að sjá þetta og einn vinur minn hringdi í mig og sagði: Ég vildi bara tékka hvort þú værir nokkuð búin að hengja þig,“ segir Margrét.

Margrét segir marga í kringum sig hafa verið í miklu áfalli fyrst um sinn en að flestir reyni að hughreysta hana. „Eftir að ég talaði við fjölmiðla finn ég fyrir miklum stuðningi og það er mér ótrúlega mikils virði.

Netið gleymir engu

Í kjölfar þess að myndbandið var tekið niður segist Margrét hafa svipast eftir því á síðum sem bjóða efni til niðurhals en að sem betur fer hafi það ekki ratað á slíkar síður enn um sinn.

„Mig grunar að fólk hafi ekki verið að búast við því að þetta yrði tekið niður svona fljótt og kannski hlóð því enginn niður, en það er ekki hægt að útiloka að það hafi gerst,“ segir Margrét. „Það var allavega pottþétt fólk sem tók myndir af myndbandinu, ég veit það því ég fékk sjálf svoleiðis [Snapchat-skilaboð].

Hún segir það vel geta farið svo að hún sleppi aldrei undan þeirri mynd sem myndbandið dró upp af henni enda gleymir veraldarvefurinn sjaldan því sem þangað ratar. „Mér líður samt betur núna þegar fólk veit hvernig þetta var í alvörinni. Ég er náttúrulega leikari og það mun alltaf eitthvað koma út þar sem ég sýni hold en það væri þá alltaf í karakter. Hann lét þetta líta út eins og þetta væri persónan ég að fara heim með túrista úr bænum.“

Segist elska stúlkurnar

Blaðamaður mbl.is ræddi lengi vel við þáttagerðarmanninn, Andrew Lindy, í gegnum samskiptamiðilinn Facebook í gær. Maðurinn skipti reglulega á milli þess að gera lítið úr birtingunni, m.a. með orðatiltækinu „Skítur skeður (e. shit happens)“ og saka blaðamann um skækjuskömm (e. slutshaming) og gefa í skyn hlýhug sinn til stúlknanna.

Sendi hann blaðamanni m.a. afrit af skilaboðum sem hann sagðist hafa sent hinni stúlkunni sem hafði spurt hvers vegna hann hefði tekið myndbandið af Margréti út af YouTube en ekki það sem sýndi hana.

„YouTube eyddi því [nafn]. Það var of mikil nekt. Ég tók þitt út sjálfur. Ég þarf að endurhugsa fyrirætlanir mínar með þetta verkefni. Þetta er of sársaukafullt svona. Og þú hefur ekki hugmynd um hvað ég hef verið leiður í allan dag. Ég er viss um að ég var ekki jafn leiður og þú Xo“

Rétt er að nefna að myndbandið af seinni stúlkunni var fjarlægt á meðan að samtal blaðamanns við Lindy hafði staðið í þó nokkra stund. Hann hélt áfram að senda blaðamanni mbl.is hugleiðingar og efni, án þess að eftir því væri falast,  eftir að hafa átt frumkvæði að því að slíta samtalinu. Hann hefur nú hindrað að blaðamaður mbl.is geti haft samband við hann á ný í gegnum Facebook.

Í myndbandi sem Lindy birti í dag segist maðurinn elska stúlkurnar og sakar Íslendinga um að vilja ekki horfast í augu við að þeir drekki mikið áfengi og stundi frjálslegt kynlíf.

Augljóst hvað hann hafði í huga

Margrét segir þær yfirlýsingar Lindy að hann beri velferð stúlknanna fyrir brjósti koma illa við sig.

„Mér finnst það ótrúlega sárt af því að hann náði að blekkja mig svoleiðis. Eftir að hafa sýnt mér þetta fyrst lofaði hann að klippa efnið til og lét eins og hann væri miður sín. En „actions speak louder than words“ og þegar hann fer á bakvið mig og birtir þetta, án þess að láta mig vita, þá er mjög augljóst hvað hann hafði í huga,“ segir Margrét.

Hún segist ekki treysta Lindy lengur og í raun ekki vita til hvers hann er vís. Hún óttist að hann muni reyna að nota myndefnið gegn henni og því íhugi hún að leita réttar síns. „Ég er í slæmri stöðu,“ segir hún að lokum.

Fyrri fréttir mbl.is:

Segja manninn hafa blekkt sig

Þingmenn skilji alvarleika hefndarkláms

Þegar refsað fyrir hefndarklám

Margrét telur frumvarp um hefndarklám sem nú liggur fyrir mikilvægt …
Margrét telur frumvarp um hefndarklám sem nú liggur fyrir mikilvægt skref, sérstaklega sökum snjallsímavæðingar.
Margrét Ásta segir að sér líði betur eftir að myndbandið …
Margrét Ásta segir að sér líði betur eftir að myndbandið var tekið af YouTube. Ljósmynd/ Margrét Ásta
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert