Sr. Skírnir Garðarsson, einn af tíu umsækjendum um starf prests við Garðaprestakall á Akranesi í lok síðasta árs, er ósáttur við að sr. Þráinn Haraldsson hafi verið skipaður í starfið og segir að þeir sem komu að ráðningunni hafi ekki haft landslög að leiðarljósi.
Hefur hann kallað eftir rökstuðningi frá biskupi vegna skipunarinnar og óskað eftir að fundargerðabók valnefndar verði aðgengileg þeim sem sóttu um starfið, innan þeirra marka sem persónuverndarlög heimila.
Embættið var auglýst í byrjun nóvember. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að hæfni í mannlegum samskiptum yrði lögð til grundvallar við val á presti í starfið sem og reynsla af barnastarfi.
Tíu umsækjendur voru um starfið, fimm konur og fimm karlar. Þar á meðal voru tveir karlar og tvær konur sem hafa hlotið prestvígslu. Biskup ákvað að skipa sr. Þráin í starfið að fenginni umsögn valnefndar. Valnefnd skipa níu manns úr prestakallinu auk prófasts í Vesturlandsprófastsdæmi
Sr. Skírnir segir í samtali við mbl.is að svo virðist sem auglýsingin hafi verið samin með ákveðinn einstakling í huga. Telur hann að málsmeðferð við ráðninguna hafi verið stórlega ábótavant, sérstaklega gagnvart þeim tveimur prestvígðu konum sem sóttu um starfið.
Ekki hafi verið litið til jafnréttislaga og ákvæða stjórnarskrárinnar um bann við mismunun vegna aldurs og skoðana. Þá telur sr. Skírnir að biskupinn hafi verið settur í óþægilega stöðu af valnefnd og prófasti.