Staðfesta ekki millifærsluna

Hannes Smárason í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Hannes Smárason í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ekki liggja fyrir skjöl frá Kaupþingi í Lúxemburg í svokölluðu Sterling-máli sem staðfesta að millifærsla af reikningi í eigu FL Group til fjárfestingafélagsins Fons hafi átt sér stað. Þetta kom fram við aðalmeðferð málsins sem hófst í morgun. Deilt er um hvort umrædd millifærsla upp á 2,87 milljarða króna hafi átt sér stað í apríl 2005 en Hannes Smárason er ákærður fyrir fjárdrátt í málinu af sérsökum saksóknara fyrir að hafa látið framkvæma millifærsluna.

Dómarinn í málinu, Guðjón St. Marteinsson, spurði Eggert J. Hilmarsson, fyrrverandi viðskiptastjóra Kaupþings í Lúxemburg, sem kom fyrir dóminn sem vitni, hvort slík gögn ættu ekki að liggja fyrir hefði millifærslan átt sér stað. Eggert sagði að bankinn ætti að halda eftir slíkum gögnum. Spurður hvers konar gögn það væru sagði hann að það ætti að vera símtal, tölvupóstur eða fax. Dómari spurði Finn Þór Vilhjálmsson saksóknara hvort slík gögn lægju fyrir og staðfesti hann að engin skjalleg gögn lægju fyrir í þeim efnum.

Frétt mbl.is: „Ég man ekkert eftir þessu“

Eggert sagðist aðspurður ekki vita hver hefði ákveðið að millifærslan yrði gerð. Ef Hannes hefði gert það ættu slík gögn að liggja fyrir. Hann staðfesti að umræða hefði farið fram um að FL Group færi hugsanlega í samstarf við Fons um fjárfestingu í lággjaldaflugfélaginu Sterling. Hann hafi hins vegar ekki vitað hversu langt sú umræða hefði farið. Hannes bar fyrir dómi í morgun að slíkar umræður hefðu ekki farið fram svo hann hafi vitað til.

Frétti af millifærslunni fyrst í fréttum

Björn Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður einkabankaþjónustu Kaupþings í Lúxemburg, var spurður fyrir dómi sem vitni í málinu hvort Hannes hefði gefið fyrirmæli um millifærsluna. Sagðist hann ekki vita til þess. Var hann þá minntur á að hann hefði sagt í skýrslutöku hjá lögreglu 2013 að Hannes hefði gert það. Sagði hann að það hlyti þá að vera rétt. Langt væri um liðið. Staðfesti hann ennfremur að hafi verklagsreglum bankans verið fylgt ættu gögn sem staðfestu millifærsluna að liggja fyrir.

Einar Sigurðsson, fyrrverandi fulltrúi í framkvæmdastjórn FL Group, var einn þeirra sem hafði prókúru hjá félaginu og bar aðspurður fyrir dómi sem vitni að hann hefði undirritað heimild til Hannesar til þess að ráðstafa fjármunum af viðkomandi reikningi þess. Hann hefði hins vegar ekki heimilað millifærsluna sjálfur né vitað að slíkt stæði til. Þá sagðist hann ekki vita hver hefði séð um millifærsluna. Hann hefði fyrst heyrt um hana í fréttum.

Einar bar ennfremur að Hannes hefði beðið sig að stofna reikninginn til notkunar við fjárfestingar erlendis. Hann hafi komið á fund Einars með heimildina og beðið Einar um að undirrita hana. Enginn ágreiningur hafi verið um að heimildin tengdist FL Group þó nafn félagsins kæmi ekki fram í henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka