Borgar sig að fara í harðar aðgerðir

Mótmælt er harðlega í leiðara Blaðs stéttafélagsins að kveðið sé á um að opna þurfi á „möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum“ í heilbrigðiskerfinu í viljayfirlýsingu á milli stjórnvalda og lækna í tengslum við nýgerða kjarasamninga lækna. Í leiðaranum, sem ritaður er af Árna Stefáni Jónssyni formann SFR og Garðari Hilmarssyni formann Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, er spurt hvernig hægt sé að skilja slíkt öðruvísi en sem fyrirboða um einkavæðingu. 

„Eru þetta vinnubrögð við hæfi? Eru kjaraviðræður milli ríki og einnar stéttar rétti vettvangurinn til þess að ákveða framtíð heilbrigðiskerfisins? Það er þekkt að ýmis konar yfirlýsingar hafi verið gerðar í kjarasamningum og í kjölfari þeirra. En í þessari yfirlýsingu í samningum við lækna er rætt um mjög stórt og eldfimmt mál sem snertir alla landsmenn. Það er meira en lítið undarlegt að ríkisstjórnin skuli nota þennan vettvang til að víla og díla um einkavæðingaráætlanir sínar,“ segir ennfremur. Óþolandi sé að í kjarasamningum sé samið um stefnu stjórnvalda um það hvernig velferðakerfið og samfélagið eigi að vera. Spyrja megi sig að því hvort heilbrigðiskerfið sé fyrir sjúklinga eða lækna.

„Hvað með vilja þjóðarinnar allrar? Hefur hún ekki þegar svarað því oftar en einu sinni í könnunum að einkavæðing heilbrigðiskerfisins er sannarlega EKKI vilji hennar. Opinberir starfsmenn munu sannarlega ekki sitja undir þessu heldur gera á móti kröfu um að stjórnvöld skrifi undir yfirlýsingu þess efnis að heilbrigðiskerfið verði EKKI einkavætt. Tilbúin að berjast!“ segir áfram. Þá segir að mjög ólíklegt sé að hægt verði að semja til lengri tíma í komandi kjarasamningum nema til komi miklar launaleiðréttingar og þeirra verði krafist.

„Skilaboð kjarasamningsviðræðna síðustu vikurnar hafa sýnt öðrum stéttum að það borgar sig að fara í harðar aðgerðir gagnvart viðsemjendum. Þau félög sem það hafa gert skila mun betri samningum en önnur og að sjálfsögðu erum við að setja okkur í þær stellingar. Því má búast við því að mánuðirnir framundan verði strembnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka