Hinn 28. janúar 2014 lést Skarphéðinn Andri Kristjánsson, 19 ára, eftir bílslys í Norðurárdal. Skarphéðinn var líffæragjafi og gaf sex líffæri til fimm einstaklinga, þar á meðal hjarta til 16 ára drengs.
Í kjölfar gjafar Skarphéðins fór af stað mikil umræða í þjóðfélaginu um líffæragjöf og hafa aðstandendur Skarphéðins verið ófeimnir við að koma fram og segja sögu sína. Þau hafa lagt til að 29. janúar, dagurinn sem Skarphéðinn gaf líffæri sín, verði dagur líffæragjafar; dagur til að minnast líffæragjafa og minna fólk á að skrá afstöðu sína til líffæragjafar.
Þau hafa valið appelsínugulan sem lit dagsins og munu stöðuverðir m.a. bera appelsínugulan borða í dag, til að vekja athygli á málefninu.
Það er fjölskyldu Skarphéðins afar mikilvægt að halda umræðunni lifandi. Þau segja mikilvægt að fólk taki afstöðu til líffæragjafar, hvort sem fólk vill gefa líffæri eða ekki, til að forða ástvinum frá svo stórri ákvörðun á erfiðum tíma.
Steinunn Rósa Einarsdóttir, móðir Skarphéðins, telur líklegt að hefði líffæragjöf ekki verið rædd í fjölskyldunni, og hún ekki vitað um afstöðu sonar síns, hefði hún ekki samþykkt að líffæri hans væru gefin öðrum.
Á heimasíðu Landlæknisembættisins er hægt að skrá afstöðu til líffæragjafar
mbl.is vill gjarnan heyra frá líffæraþegum og aðstandendum líffæragjafa. Ábendingar má senda á netfangið holmfridur@mbl.is.