Agnes Bragadóttir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur að undanförnu rannsakað lekann sem varð þegar gögnum var sl. haust lekið til Kastljóss Sjónvarpsins um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Eimskip og Samskipum og kæru Samkeppniseftirlitsins (SKE) á svonefndum ellefumenningum Eimskips og Samskipa til sérstaks saksóknara.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur rannsókn lögreglu m.a. leitt til þess að hún lagði hald á ákveðin tölvugögn í Samkeppniseftirlitinu, og við rannsókn þeirra gagna hefur einn starfsmaður Samkeppniseftirlitsins hlotið réttarstöðu grunaðs manns.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur rannsókn lögreglunnar staðið um nokkurt skeið, en það var í október í fyrra, sem Eimskip kærði til lögreglu leka á upplýsingum til Kastljóss sem voru um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintum brotum Eimskips og Samskipa á samkeppnislögum, auk þess sem kæru Samkeppniseftirlitsins til sérstaks saksóknara frá því í mars 2014 á hendur þeim ellefumenningum hjá Eimskip og Samskipum, sem rannsóknin beindist að, var lekið til Kastljóss.
Sérstakur saksóknari beindi kærunni skömmu síðar til ríkissaksóknara, sem ákvað að fela lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka þetta lekamál.
Nýverið mun lögreglan í Reykjavík hafa lagt hald á ákveðin tölvugögn í Samkeppniseftirlitinu, og ákveðin tölvupóstsamskipti sem rannsökuð hafa verið, hafa nú, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, leitt til þess að ákveðinn starfsmaður Samkeppniseftirlitsins hefur nú réttarstöðu sakbornings.
Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.