Gréta í mannréttindaráð í stað Gústafs

Gréta Björg Egilsdóttir og Gústaf Níelsson.
Gréta Björg Egilsdóttir og Gústaf Níelsson. Samsett mynd

Kosið verður um nýjan varamann í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar á borgarstjórnarfundi í dag. Ljóst er að Gústaf Níelsson mun ekki taka sæti, en í hans stað verður Gréta Björg Egilsdóttir skipuð sem varamaður í ráðið. 

Gústaf var kjörinn með tíu atkvæðum á síðasta fundi borgarstjórnar, en í kjölfarið mynduðust miklar umræður um skipun hans vegna skoðana sem hann hef­ur viðrað á sam­kyn­hneigðum og múslim­um. Voru borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina, þær Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, harðlega gagnrýndar fyrir að tilnefna Gústaf.

Þá gagnrýndi forysta Framsóknarflokksins valið harðlega og í kjölfarið fundaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, með borgarfulltrúunum. Skömmu síðar var gefin út yfirlýsing þess efnis að Gústaf yrði settur af vegna viðhorfa sinna til samkynhneigðar, og sögðust þær ekki hafa vitað af þeim sjónarmiðum áður en þær tilnefndu hann í ráðið.

Eftir skipun Grétu Bjargar verður Framsókn með báða varaborgarfulltrúa sína í ráðinu, en fyrir er Jóna Björg Sætran aðalmaður í ráðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka