Aka ekki vegna ósættis við Strætó

Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og hefur gengið erfiðlega …
Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og hefur gengið erfiðlega að láta hana virka rétt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Níu leigubílstjórar sem aka fyrir ferðaþjónustu fatlaðra á vegum Strætó lögðu niður störf í gær í mótmælaskyni vegna óánægju með laun fyrir janúarmánuð. Sömu bílstjórar hyggjast ekki aka í dag, og fleiri hafa bæst í hópinn. Samkvæmt heimildum mbl.is vantar því 12 bílstjóra í akstursþjónustuna í dag.

Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, segir málið grafalvarlegt. „Að því sem ég kemst næst skiluðu þessir bílstjórar inn spjaldtölvum sem þeir fengu þegar þeir hófu akstur fyrir akstursþjónustuna í gær, og því er ekki ljóst hvort þetta sé tímabundið eða varanlegt,“ segir hann.

Akstursþjónustan er þrískipt. Í A-hluta, sem er stærstur, eru bílar frá Hópbílum sem eingöngu sinna ferðaþjónustu fatlaðra með sérútbúnum bílum. Í B-hluta eru sjálfstæðir verktakar Hópbíla sem sinna hluta akstursþjónustunnar og í C-hluta eru venjulegir leigubílar, sem kallaðir eru út þegar álagið er mest. Að sögn Bergs er óánægjan mest hjá bílstjórum í C-hluta, þar sem bílstjórar eru 12 talsins, og enginn þeirra ekur í dag. 

Bílstjórarnir aka allir leigubílum en hluti þeirra ekur sérútbúnum bílum sem geta tekið við hjólastólum. Þeir fá greitt fyrir hverja ferð sem þeir aka, en uppi hafa verið raddir um það að verkefni séu ekki næg til að þetta borgi sig. Bílstjórarnir eru ósáttir við að fá ekki greitt milli ferða, en þeir þurfi þó að vera til taks ef þeir eru kallaðir í verkefni á vegum ferðaþjónustu fatlaðra.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri hjá Strætó, segir þetta ekki skerða þjónustu fyrirtækisins og ekki bitna á notendum hennar. Hún segir þó möguleika á því að aðrir bílstjórar akstursþjónustunnar finni fyrir meira álagi. 

Þá segir hún að unnið sé að lausn málsins innan fyrirtækisins. Strætó hafi þó staðið við alla samninga. Sjálfsbjörg mun funda með forráðamönnum Strætó á morgun þar sem þessi mál verða tekin fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert