Sigtryggur Magnússon, framkvæmdastjóri All Iceland Tours, sem ekur fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, segist í sjokki yfir viðburðum dagsins, en það var bílstjóri á vegum fyrirtækisins sem ók Ólöfu Þorbjörgu Pétursdóttur og fleiri einstaklingum frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla að Hinu húsinu í dag.
Sigtryggur sinnir þessum akstri venjulega sjálfur en annar bílstjóri ók fyrir hann í dag, sökum anna hjá Sigtryggi.
Hann segir atburðarásina hafa verið eftirfarandi:
Bílstjórinn sótti átta einstaklinga í Fjölbrautaskólann á 16 farþega Ford Transit. Fara þurfti með ungmennin í tveimur hollum inn í Hitt hús, þar sem lyftan þar tekur aðeins fjóra einstaklinga. Ólöf hafi verið í seinna hollinu. Hún hafi sannarlega farið út úr bílnum, en hlaupið inn í hann aftur og líklega falið sig bak við öftustu sætin.
Bílstjórinn ók með fjölda fólks eftir þetta en Ólafar varð ekki vart. Hann lagði síðan bílnum fyrir utan heimili sitt og finnur ekki Ólöfu fyrr en honum berst símtal um leitina og hann fer að athuga bílinn.
Sigtryggur gagnrýnir að starfsfólk Hins hússins hafi ekki aðstoðað bílstjórann, en sjálfur hafi hann margoft þurft að hringja eftir aðstoð. Þá hafi hann verið búinn að tilkynna að Ólöf ætti það til að hlaupa burt.
Föst í bílnum í sjö klukkustundir