Pétur Gunnarsson, faðir Ólafar Þorbjargar sem leitað var að í dag, segir lýsingar Sigtryggs Magnússonar, framkvæmdastjóra All Iceland Tours, á atburðarás dagsins ekki standast skoðun.
Sigtryggur fullyrti í samtali við mbl.is í kvöld að Ólöf hefði farið út úr bifreiðinni sem bílstjóri fyrirtækisins ók fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, og síðan hlaupið upp í hana aftur. Pétur segir þetta ómögulegt. Ólöf, eða Lóa eins og hún er kölluð, kunni ekki og hafi aldrei losað sig úr öryggisbelti. Hún geti heldur ekki sett beltið á sig sjálf. Hann segir að Ólöf hafi enn verið í beltinu þegar hún fannst í bifreiðinni fyrir utan heimili bílstjórans.
Leit hófst að Ólöfu um kl. 17, þegar hún skilaði sér ekki heim, en hún átti að dvelja í Hinu húsinu frá 13-16. Pétur segir ferðaþjónustuna mislengi að skila krökkunum af sér, það velti á umferðarþunga, en kl. 17 hafi fjölskylda hennar farið að undrast um hana.
Um það leyti var haft samtal við bílstjórann, að sögn Péturs, en hann fullyrti að Ólöf hefði farið út við Hitt húsið. Pétur segir að þrátt fyrir að leit stæði yfir hefði bílstjórinn ekki farið út í bíl að kanna málið fyrr en lögregla mætti heim til hans skömmu fyrir klukkan 20.
Þá hafi Ólöf verið búin að sitja í bifreiðinni fyrir utan heimili hans í myrkri og kulda í nærri þrjá tíma.
Pétur segir enn fremur að það standist ekki sem Sigryggur segir, að dóttir hans hafi átt það til að hlaupa burt. Allir sem þekki Lóu viti að hún hlaupi aldrei burt. Aldrei, ítrekar hann.
Pétur segir ómögulegt að segja til um líðan dóttur sinnar, enda geti hún ekki tjáð sig um það sem kom fyrir. Hann segir hins vegar að hún hafi verið afar glöð að koma heim.