Bráðabirgðastjórn verður skipuð yfir Ferðaþjónustu fatlaðra með aðkomu fulltrúa hagsmunasamtaka, að því er fram kemur á vef RÚV. Þar segir að þetta hafi verið ákveðið á fundi þar sem fulltrúar Strætó hittu borgarstjóra og fulltrúa sveitarstjórna sem reka Strætó í morgun.
Með þessu á að bregðast við máli sem upp kom í gær þegar Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir, átján ára þroskaskert stúlka, týndist í um sjö klukkustundir. Fannst hún í læstum bíl á vegum ferðaþjónustu fatlaðra undir kvöld.
Í frétt RÚV kemur fram að nýju yfirstjórninni sé ætlað að taka þessi mál fastari tökum en áður hefur verið gert.
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, hefur boðað Dag B. Eggertsson, borgarstjóra á sinn fund vegna málefna ferðaþjónustu fatlaðra. Eins verður haft samband við aðra oddvita sveitarfélaga sem eiga aðild að Strætó.
Strætó bs. sendi frá sér tilkynningu í gær um að fyrirtækið harmaði það að stúlkan hafi verið skilin eftir í bílnum og voru stúlkan og fjölskylda hennar beðin afsökunar. Í tilkynningunni sagði jafnframt að málið sé til rannsóknar og allt verði gert til að komast í botn í því.
Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir mun ekki nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra fyrr en búið er að gera breytingar á fyrirkomulaginu að sögn föður hennar Péturs Gunnarssonar sem mbl.is ræddi við í morgun.