Dæmdur í fimm ára fangelsi

Scott James Carcary huldi sig við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi.
Scott James Carcary huldi sig við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi.

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdi Scott James Carcary í fimm ára fangelsi á síðasta ári fyrir að hafa orðið fimm mánaða gamalli dóttur sinni að bana 17. mars 2013. Dómur Hæstaréttar var nú kveðinn upp kl. 16. Einn dómari skilaði sératkvæði og vildi sýkna Carcary.

Honum var einnig gert að greiða móður barnsins þrjár milljónir króna í miskabætur.

Carcary var ákærður fyr­ir stór­fellda lík­ams­árás með því að hrista dótt­ur sína svo harka­lega að hún hlaut blæðingu í heila sem leiddi til dauða henn­ar. Ítar­lega var fjallað um aðalmeðferð máls­ins á mbl.is og má finna um­fjöll­un­ina hér.

Carcary fór fram á það fyrir Hæstarétti að hann yrði sýknaður af öllum kröfum en til vara að refsingin yrði lækkuð.

Ríkissaksóknari fór fram á að refsing hans yrði þyngd í átta ár.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ólafur Börkur skilaði sératkvæði. Hann segist fallast á með meirihluta dómenda að sannað sé að barnið hafi látist af mannavöldum. Hann segir að Carcary verði ekki sakfelldur með þeim rökum að langlíklegast sé að hann hafi framið brotið. Ekki hafi verið vitni að atvikum. Það er því niðurstaða Ólafs Barkar að ákæruvaldið hafi við meðferð málsins ekki axlað þá sönnunarbyrði fyrir sekt mannsins sem á embættinu hvíli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert