Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir mun ekki nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra fyrr en búið er að gera breytingar á fyrirkomulaginu að sögn föður hennar Péturs Gunnarssonar. mbl.is ræddi við Pétur í morgun þegar hún var að fara í skólann en hann segir fjölskylduna í miklu áfalli eftir atburði gærdagsins þegar Ólöf Þorbjörg var læst inni í bíl ferðaþjónustunnar í sjö klukkustundir.
„Það er alveg ljóst að hún mun ekki nýta sér þjónustuna fyrr en búið er að gera breytingar á fyrirkomulaginu,“ sagði Pétur. Ástandið hafi verið algerlega óviðunandi allt frá því að fyrirkomulaginu var breytt seint á síðasta ári og að engan veginn sé hægt að búa við það lengur.