Mál Ólafar kornið sem fyllti mælinn

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Bryndís Haraldsdóttir stjórnarformaður Strætó bs. …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Bryndís Haraldsdóttir stjórnarformaður Strætó bs. á fundinum í dag. mbl.is/Golli

„Þetta hefur ekki gengið eins og þetta á að ganga. Við vorum að vona að þetta væri að batna en þetta tilvik í gær er einfaldlega svo alvarlegt að við töldum óumflýanlegt að svona yrði stigið inn í,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á neyðarfundi um mál ferðaþjónustu fatlaðs fólks í ráðhúsi Reykjavíkur í hádeginu.

Borgarstjóri fundaði með bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu og stjórn Strætó og gengið var frá myndun neyðarstjórnar yfir ferðaþjónustu fatlaðra undir stjórn Stefáns Eiríkssonar, sviðsstjóra velferðarsviðs með aðild fulltrúa Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar og Þroskahjálpar.

Með þessu á að bregðast við máli sem upp kom í gær þegar Ólöf Þor­björg Pét­urs­dótt­ir, átján ára þroska­skert stúlka, týnd­ist í um sjö klukku­stund­ir. Fannst hún í læst­um bíl á veg­um ferðaþjón­ustu fatlaðra und­ir kvöld. 

Dagur neitaði því ekki á fundinum að fara hefði mátt fyrr í aðgerðir sem þessar, en þar sem það hafi ekki verið gert fyrr en nú sé notast við aðferðafræði krísustjórnar. Þá segir hann mál Ólafar hafa verið kornið sem fyllti mælinn. 

Skipunartími stjórnarinnar verða fjórar vikur, en meginhlutverk hennar er að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks eins fljótt og kostur er. Stjórnin hefur fullt umboð til að gera tillögur um breytingar á fyrirkomulagi eða framkvæmd þjónustunnar til framtíðar.

Auk Stefáns Eiríkssonar munu Þorkell Sigurlaugsson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðlaug Kristjánsdóttir, Guðjón Erling Friðriksson sitja í stjórninni. Starfsmaður stjórnarinnar verður Jóhannes Rúnarsson.

Stjórn­in hefur fullt umboð til að gera þær breyt­ing­ar sem hún tel­ur nauðsyn­leg­ar til að bæta úr í þjón­ustu og fram­kvæmd. Stjórn­in hefur einnig fullt umboð til að gera til­lög­ur um breyt­ing­ar á fyr­ir­komu­lagi eða fram­kvæmd þjón­ust­unn­ar til framtíðar. Farið verður í óháða út­tekt á aðdrag­anda, inn­leiðingu og fram­kvæmd ferðaþjón­ustu fatlaðs fólks hjá Strætó. Þá verði sér­stök út­tekt gerð á al­var­legu máli Ólaf­ar Þor­bjarg­ar Pét­urs­dótt­ur.

Með þessu er verið að taka und­ir hug­mynd­ir sem komið hafa fram á síðustu dög­um um óháða út­tekt á ferðaþjón­ustu fatlaðs fólks og að sér­stök stjórn með aðkomu hags­munaaðila komi að mál­inu. Lagt er til að erindisbréf stjórnarinnar verði gefið út á mánudaginn nk. og lagt fram til staðfestingar á stjórnarfundi SSH.

Frá neyðarfundinum í dag.
Frá neyðarfundinum í dag. mbl.is/Golli
Bryndís Haraldsdóttir stjórnarformaður Strætó bs.
Bryndís Haraldsdóttir stjórnarformaður Strætó bs. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert