Gærdagurinn var martröð og mikið álag var á bílstjórum. Þetta segir Valdimar Jónsson, bílstjórinn hjá ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem keyrði Ólöfu Þorbjörgu í gær, í viðtali á DV. Þar segir hann frá sinni reynslu af atburðum gærdagsins, þrátt fyrir að gefið hafi verið út að hann myndi ekki tjá sig um málið.
Í viðtalinu á DV segir hann stúlkuna í raun aðeins hafa verið eina í bílnum í rúman hálftíma, en ekki lengur en það. Hann hafi ekki lagt bílnum fyrr en klukkan sjö í gærkvöldi, en Ólöf fannst um hálf átta leytið. Þá segir hann ekkert hafa amað að henni þegar hann fann hana; hún hafi setið hin rólegasta og brosað til hans þegar hann kom út í bílinn.
Mbl.is hafði samband við Valdimar, sem vildi ekki tjá sig frekar um málið. Hann sagði yfirlýsingu vegna málsins verða gefna út síðar í dag og hann muni ekki tjá sig fram að því.
Mikið álag var á bílstjórum í gær vegna þess að tólf bílstjórar lögðu þá niður störf vegna óánægju með launauppgjörs janúarmánaðar. Segir Valdimar því stutt hafa verið á milli ferða, og varla hafi verið tími til að sinna farþegum. Neitar hann því ekki að álagið gæti hafa valdið því að Ólöf gleymdist í bílnum.
Valdimar segir „eitthvað hafa ýtt sér“ út í það að kíkja í bílinn um klukkan hálf átta og hann hafi hringt í lögregluna um leið og hann fann Ólöfu þar. Hann hafi svo beðið með Ólöfu í bílnum þar til lögregla kom.
Valdimar byrjaði að keyra fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks þann 19. janúar síðastliðinn. Áður var hann vagnstjóri hjá Strætó, en hann er jafnframt lærður ökukennari. Síðasta laugardag sat hann námskeið á vegum Strætó fyrir bílstjóra í ferðaþjónustunni.
Valdimar verður ekki yfirheyrður vegna málsins, en rætt verður við hann um atburðina síðar í dag samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Eins og fram hefur komið hefur honum verið vikið tímabundið frá störfum, en í frétt DV segist hann ekki hafa fengið tilkynningu um þetta sjálfur.