Rafmagnslaust á Reykjanesi

Rafmagnslaust er á öllu Reykjanesi.
Rafmagnslaust er á öllu Reykjanesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Suðurnesjalína 1 leysti út á Fitjum kl 13:06 í dag og þar með varð straumlaust á öllu Reykjanesi.  Ástæða bilunarinnar er að bárujárnsplata fauk á línuna og hangir föst á henni. 

Unnið er að viðgerð og vonast til að henni ljúki milli 14:30 og 15. 

Tenging Reykjaness við meginflutningskerfi raforku er einungis um þessa einu línu í dag og afhendingaröryggi því tengt ástandi línunnar.

Uppfært kl. 14.14:

Keflavíkurflugvelli var lokað um stundarsakir kl 14. vegna rafmagnsleysis. Erfiðlega hefur gengið að koma varafali á flugvöllinn en rafmagn er komið á í flugstöðinni.

Flugvélum sem væntanlegar eru til lendingar næstu klukkustundina eða þar til rafafl kemst aftur á verður leiðbeint til lendingar með sjónrænum hætti eftir því sem skyggni gefst til.

Ekki er vitað hversu lengi flugvöllurinn verður lokaður.

Uppfært kl. 14.23:

Að sögn Friðþór Eydal, talsmanns ISAVIA, er ekki vitað hversu lengi flugvöllurinn verður lokaður. Vonast hann til þess að viðgerð taki skamman tíma. 

Segir hann lokunina fyrst og fremst yfirlýsingu um ástand og varúðarráðstöfun. Hægt verður að leiðbeina vélum sem koma til lendingar. Engar vélar eiga á taka á loft fyrr en á fjórða tímanum og sagðir Friðþór aðspurður ekki hafa upplýsingar um hvort vélarnar muni geta tekið á loft verði enn straumlaust þá. 

Friðþór segir að af og til þurfi að leiðbeina flugvélum til lendingar með sjónrænum hætti. 

Tölvukerfi sem hýst eru á Suðurnesjum eru úti vegna staumleysisins. Að sögn Friðjóns munu upplýsingar um komur og brottfarir ekki uppfærast á textavarpi RÚV þar sem upplýsingarnar berast ekki þangað úr kerfinu. Farþegar geta haft samband við sitt flugfélag og fengið þessar upplýsingar. Vefsíða Keflavíkurflugvallar, kefairport.is, liggur niðri. 

Uppfært kl. 14.30

Vinnuflokkur frá Landsneti er að hefja störf en það lítur út fyrir skemmd á línunni. Áætlaður viðgerðartími u.þ.b. 1 klst og gæti rafmagn því verið komið á um klukkan 15.30.

Uppfært kl. 14.37

Í tilkynningu frá Isavia segir að Keflavíkurflugvelli hafi verið lokað um stundarsakir klukkan 14 vegna rafmagnsleysis en að hann hafi verið opnaður aftur fyrir umferð í sjónflugi. Erfiðlega hafi hins vegar gengið að koma varaafli á lendingarljós og leiðsögubúnað á flugvellinum. Engin truflun er á starfsemi í flugstöðinni.

Tveimur flugvélum hefur þegar verið leiðbeint til lendingar í sjónflugi og ekki er gert ráð fyrir röskun á flugi af þessum sökum.

Flugfarþegum er bent á að nálgast upplýsingar um komur og brottfarir á vefsíðunni: http://fids.kefairport.is/site/flights

Uppfært kl. 14.49

Vinnu við viðgerð á SN1 er lokið og innsetning er að hefjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert