Engin sönnunargögn eru til um að ekkert kjöt hafi verið til staðar í nautakjötsböku Gæðakokka þar sem bökurnar sem teknar voru sem sýni voru rannsakaðar upp til agna. Þetta taldi verjandi fyrirtækisins aðalástæðu þess að sýkna bæri það af ákæru um að hafa selt vörur með röngum upplýsingum á umbúðum.
Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn fyrirtækinu Kræsingum ehf., sem áður hét Gæðakokkar, vegna nautakjötsbaka sem rannsókn Matís leiddi í ljós að innihéldi ekkert nautakjöt fór fram í Héraðsdómi Vesturlands í morgun. Þar rakti Reimar Snæfells Pétursson, verjandi Kræsinga, ýmislegt sem hann taldi annmarka á rannsókn málsins.
Þannig hefði lögregla aldrei lagt hald á sönnunargögnum í málinu eins og henni bæri skylda til að gera. Hún hefði ekki gert nokkra tilraun til þess að leggja hald á bökurnar sem Matís gerði DNA-rannsókn á og komst að þeirri niðurstöðu að þær innihéldu ekkert nautakjöt snemma árs 2013. Engin sönnunargögn væru því til í málinu enda hafi erfðafræðingur Matís borið að sýnin hefðu verið rannsökuð upp til agna. Þá hafi starfsmönnum Matís ekki verið kunnugt um að rannsóknin væri hluti af sakamálarannsókn. Þetta allt taldi Reimar meiriháttar brotalöm á rannsókninni.
Ósannað væri því að ekkert nautakjöt hafi verið í bökum Gæðakokka. Þess fyrir utan kvæði matvælalög, en fyrirtækið er ákært á grundvelli þeirra, ekki á um að hver einasta eining vöru innihéldi nákvæmlega upp á prósentustig það sem kæmi fram í innihaldslýsingu enda væri það ógerlegt. Aðeins þurfi að tryggja að við framleiðsluna séu notuð þau innihaldsefni sem komi fram á vörunni.
Jón Haukur Hauksson, sækjandi, sagði hins vegar meginatriði málsins vera það að ekkert kjöt reyndist í bökum fyrirtækisins. Það snerist aðallega um neytendavernd, að neytendur geti vitað hvað þeir séu að kaupa og hvað þeir séu ekki að kaupa.
Matvælalög veiti ekkert svigrúm til fráviks í innihaldi matvæla eða að bara sumt af framleiðslunni standist innihaldslýsinguna. Staðfest sé í þessu máli að verulegt ósamræmi hafi verið á milli innihaldslýsingar og framleiðsluvöru.
Brotið hafi klárlega verið til hagsbóta fyrir ákærða enda væri nautakjötið einn dýrasti hluti bökunnar. Þá hafi forsvarsmaður fyrirtækisins þegar játað ákveðna lausung á innihalda framleiðslu sinnar í sambandi við lambahakksbollur sem það framleiddi. Ekki var hins vegar ákært vegna þess.