Ekkjan og börnin greiði LÍN

Ekkja Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, og sex börn hans þurfa að greiða Lánasjóði íslenskra námsmanna rúmar tólf milljónir króna samkvæmt dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp eftir hádegi í dag.

Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að LÍN hefði ekki sýnt af sér stórbrotna vanrækslu. 

Tómas Hrafn Sveinsson er lögmaður fjölskyldunnar og segist hann í samtali við mbl.is eiga von á því að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Steingrímur var ábyrgðarmaður fyrir námsláni sem sonur hans tók hjá LÍN á árunum 1983 til 1988. Sonur Steingríms, sá sem tók lánið, er yngsta barn hans af þremur sem hann eignaðist með þáverandi konu sinni í Bandaríkjunum. Steingrímur tók á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfunum til tryggingar skilvísri greiðslu á höfuðstól námslánanna.

Steingrímur lést í febrúar árið 2010. Endurgreiðslur samkvæmt námslánaskuldinni hófust 1. september árið 1991 og voru í skilum fram í febrúar árið 2010. Mánuði síðar lenti sonur hans í vanskilum með afborganir af láninu. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði veitti erfingum Steingríms heimild til að krefjast upplýsinga hjá öðrum um eignir dánarbúsins og skuldstöðu þess. Ekkja Steingríms og börn hans tóku á sig sameiginlega sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbúsins er sótt var um leyfi til einkaskipta á dánarbúinu.

Vegna verulegra vanskila allt frá gjalddaga 1. mars árið 2010 var skuldin öll gjaldfelld 2. júlí 2012. Ekkjunni og fimm börnum hennar var tilkynnt að til innheimtu væri námslán sonar Steingríms.

Sonur Steingríms, sá sem tók námslánið, taldi fyrir dómi ósanngjart og andstætt góðri viðskiptavenju að krefja hann um rúmlega 12 milljónir króna vegna námslána sem virðast hafa numið rúmum 2 milljónum króna að nafnvirði auk þess sem greitt hafi verið af þeim í 19 ár. Sú stórkostlega hækkun sem orðið hafi á þessum námslánum sé ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju.

Ekkja Steingríms og börn sögðu fyrir dómi að þegar þau tóku ákvörðun árið 2010 um að taka að sér sjálfskuldarábyrgð á skuldum hins látna ábyrgðarmanns hafi verið í gildi áralöng stjórnsýsluframkvæmd Lánasjóðs íslenskra námsmanna, þ.e. að þegar dánarbúi var skipt einkaskiptum var ekki gengið að erfingjum. Héraðsdómur hafnaði þessu aftur á móti. 

Sögðu þau að í byrjun ársins 2010 hafi LÍN ákveðið að breyta áralangri og venjuhelgaðri stjórnsýsluframkvæmd og hóf innheimtu mála fjögur ár aftur í tímann á hendur erfingjum sem fengið höfðu leyfi til einkaskipta á dánarbúi ábyrgðarmanna. Þannig hafi LÍN ákveðið að breyta stjórnsýsluframkvæmd með afturvirkum hætti og viðurkenni það skýrlega í tölvupósti lögfræðings fjölskyldunnar. Þessi ákvörðun hafi ekki verið tekin með formlegum hætti og ekki verið tilkynnt opinberlega af hálfu LÍN.

Þá taldi fjölskyldan einnig að LÍN hafi ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni og hafi sýnt af sér verulegt tómlæti. Lánveitandi skuli senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu svo fljótt sem kostur er á um vanefndir lántaka. Tilefni hafi verið fyrir LÍN strax í mars árið 2010 að tilkynna fjölskyldunni um vanskil en engin slík tilkynning hafi verið send. LÍN hafi aftur á móti látið líða tvö ár og átta mánuði frá vanskilum.

Stefnandi, LÍN, vísaði til þess fyrir dómnum að samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum geti sýslumaður veitt erfingjum hins látna leyfi til einkaskipta að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Eitt þessara skilyrða sé að erfingjar taki á sig sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunni að hvíla á búinu og gjöldum sem leiði af skiptunum eða arftöku. Samkvæmt lögunum beri erfingjar, sem leyfi hafa fengið til einkaskipta, sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum búsins eftir að einkaskiptum sé lokið, án tillits til þess hvort þeim hafi verið kunnugt um þær áður en skiptum var lokið. Sjálfskuldarábyrgð erfingja á skuldbindingum dánarbús standi því ekki aðeins á meðan einkaskiptin fari fram, heldur einnig eftir lok þeirra.

Stefnandi byggði meðal annars á því að stefndu, Edda Guðmundsdóttir, Hlíf Steingrímsdóttir, Hermann Ö. Steingrímsson, Guðmundur Steingrímsson, John Bryan Steingrímsson og Ellen Herdís Steingrímsdóttir hefðu tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu námslánaskuldarinnar, einn fyrir alla og allir fyrir einn, með því að rita undir yfirlýsingu um að þau tækju að sér sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbúsins, er sótt var um leyfi til einkaskipta á dánarbúi Steingríms Hermannssonar.

Hér má sjá dóminn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert