Það gladdi Seltirninga, og líklega ekki síst bæjarstjórnina á Nesinu, þegar tilkynnt var í haust að bæjarfélagið hefði verið valið „draumasveitarfélag“ landsins í árlegri úttekt vikuritsins Vísbendingar á rekstri og fjárhag íslenskra sveitarfélaga.
Reyndist Seltjarnarnesbær koma best út af öllum sveitarfélögunum þegar skoðaðir voru þættir eins og skattheimta, breytingar á fjölda íbúa, afkoma sem hlutfall af tekjum, hlutfall skulda af tekjum og veltufjárhlutfall, að því er fram kemur í umfjöllun um heimsókn Morgunblaðsins á Seltjarnarnes í blaðinu í dag.
Fleiri atriði styðja þá skoðun að það sé gott að eiga heima á Seltjarnarnesi. Þannig sýna árlegar þjónustukannanir Capacent mikla ánægju íbúa með þjónustu bæjarins. 92% íbúa kváðust ánægð í síðustu könnun. Til samanburðar má nefna að sama könnun sýnir aftur á móti talsverða óánægju með þjónustu borgaryfirvalda í Reykjavík.