Komst lífs af ásamt hundi sínum

Steinaborg í Berufirði.
Steinaborg í Berufirði. Skjáskot/RÚV

Rúmlega þrítugur karlmaður komst lífs af ásamt hundi sínum þegar eldur kom upp á bænum Steinaborg í Berufirði á sjötta tímanum í dag. Bærinn hafði verið í eyði í um hálfa öld þegar maðurinn flutti inn í sumar en hann ætlaði að gera bæinn upp. Húsið er gjörónýtt.

Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Austurlands barst tilkynning um eldsvoðann kl. 17.27 í dag. Slökkvilið á Djúpavogi og Breiðdalsvík voru kölluð út en þegar komið var á staðinn var ljóst að lítið var hægt að gera. Húsið var alelda og nær fallið. Afar hvasst var í Berufirði í kvöld. Bærinn er byggður úr timbri og breiddist eldurinn því mjög hratt út.

Maðurinn slasaðist ekki í brunanum en var þó mjög brugðið. Hafði hann ætlað sér að gera upp húsið. Honum tókst að koma hundi sínum út úr húsinu og einhverju af eigum sínum. Fékk hann far með slökkviliðsmönnum að bæ í nágrenninu þar sem hann mun gista í nótt.

Ekki er hægt að staðfesta eldsupptök að svo stöddu en talið er að eldurinn hafi kviknað út frá kamínu sem notuð var til upphitunar. Ekkert rafmagn var í húsinu.

Slökkviliðin tvö þurftu að fara nokkuð langa leið frá Djúpavogi og Breiðdalsvík og þegar kom að því að keyra upp að bænum lentu þau í vandræðum. Upphaflega lá vegurinn sem liggur framhjá húsinu fyrir ofan bæinn en þegar vegurinn var færður niður fyrir Steinaborg var bærinn kominn í eyði. Því var aldrei gerð heimreið að bænum og því reyndist erfitt að aka upp að honum.

Björgunarsveitin Bára á Djúpavogi var einnig kölluð út til aðstoðar vegna eldsvoðans. 

Rætt var við manninn í Landanum á RÚV nýlega. Sagði hann frá dvöl sinni á bænum og áformum sínum um að gera hann upp. 

Frétt mbl.is: Ófærð og eldur í eyðibýli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert