Rapparadeilurnar hreinn uppspuni?

Reykjavíkurdætur.
Reykjavíkurdætur.

Eftir deilur á milli rapparans Emmsjé Gauta og Reykjavíkurdætra síðustu daga hafa margir velt því fyrir sér hvort um svokallað „publicity stunt“ sé að ræða, og hvort rifrildið sé jafnvel uppspuni til að vekja athygli á Hlustendaverðlaununum sem fram fara í kvöld. 

Mbl.is ræddi við Andrés Jónsson, almannatengil og eiganda Góðra samskipta, og fékk álit sérfræðings á málinu.

Tækifæri til að láta ljósið skína

Deilurnar byrjuðu þegar Emmsjé Gauti birti tíst um helgina þar sem hann sagði að Reykjavíkurdætur væru „feit pæling sem gengi ekki upp.“ Kolfinna Nikulásdóttir, meðlimur Reykjavíkurdætra, sem einnig er þekkt sem Kylfan, tók tístinu ekki vel og skaut föstum skotum til baka á Gauta.

„Svona deilur fara oft af stað með röð tilviljana en svo sjá menn kannski að þetta fær athygli og þá er stundum gert í því að halda áfram,“ segir Andrés, en bætir við að hluteigandi aðilar eigi oft erfitt með að viðurkenna að um slíkt sé að ræða.

„Ég held að þetta hafi ekki verið algjörlega skipulagt hjá Emmsjé Gauta og Reykjavíkurdætrum, en þau hafi þó fljótt borið skynbragðið á það að þetta væri tækifæri til að láta ljós sitt skína.“

„Þetta er raunveruleiki en hann er ýktur“

Andrés segir þetta alþekkt, og fjölmörg fordæmi séu í rappbransanum. Bendir hann meðal annars á deilurnar á milli East coast og West coast rappsenunnar í Bandaríkjunum á tíunda áratug síðustu aldar, sem eru taldar hafa verið magnaðar upp til að auka plötusölu. 

Þá séu jafnframt dæmi um deilur á milli rappara hér á landi, og má þar nefna Erp og Móra sem deildu harkalega fyrir nokkrum árum. „Menn eru að gera upp með lögum og textum og það er hluti af senunni,“ segir Andrés.

Hann segir það viðurkennt í skemmtanageiranum að hliðra mörkum sannleikans, og leyfilegt sé að spinna upp leikþætti fyrir kastjósi fjölmiðla þar frekar en í mörgum öðrum geirum. „Það er til að mynda þekkt bæði úr Hollywood og West end að gera mikið úr því ef einhver slasast á sviði til að koma leikritinu í umræðuna. Þetta er raunveruleiki en hann er ýktur.“

Umræðan eins og pendúll

Andrés segir umræðuna eins og pendúl og samúðina geta sveiflast. „Fólk verður reitt við ummæli Emmsjé Gauta en ef einhver Reykjavíkurdætra gengur of langt í svarinu þá getur samúðin aftur sveiflast,“ segir hann. „Þetta er vandmeðfarið. Fyrir fólk sem ætlar að vera í skemmtanageiranum skiptir það máli að láta fólk vita af sér, koma fram á opinberum vettvangi og standa fyrir sínu.“

Þá segir hann neikvæða umfjöllun vekja mun meiri athygli en jákvæða, og því sé mikilvægt fyrir fólk sem kemst í fjölmiðla af slíkum ástæðum að átta sig á því að augu fólks séu á því. Í því samhengi bendir hann á myndband sem Reykjavíkurdætur birtu þar sem þær lásu upp ummæli sem skrifuð höfðu verið um þær á kommentakerfum.

Fjölmiðlar snúa blinda auganu

„Stundum spila fjölmiðlarnir með og snúa blinda auganu að þessu því þeim finnst þetta sjálfum skemmtilegar fréttir,“ segir Andrés, og bendir meðal annars á meint vinslit Arnars Grat og Ívars Guðmundssonar, sem urðu að auglýsingaherferð og vöktu athygli á vöru þeirra.

Aðspurður hvort auglýsingastofur standi á bakvið „publicity stunt“ sem þessi eða listamennirnir sjálfir, segir hann það mjög misjafnt. „Sumir listamenn eru mjög góðir í því að gera svona sjálfir en í öðrum tilfellum eru auglýsingastofur á bakvið þá. Það hefur margsannað sig að eitthvað neikvætt veikur meiri athygli og því eru sumir sem sækjast eftir því.“

Loks segir Andrés athygli vera verðmæti í sjálfu sér. „Hún er takmörkuð því við höfum bara 16 vökustundir á sólarhring, og þess vegna er keppst um hana. Hún er einhvers virði.“

Frétt mbl.is: Reykjavíkurdætur eru fokking athyglissjúkar

Frétt mbl.is: Emmsjé Gauti slökkti á notifications

Frétt mbl.is: Remúlaðifylltu brundbuddur

Andrés Jónsson almannatengill og eigandi Góðra samskipta.
Andrés Jónsson almannatengill og eigandi Góðra samskipta.
Emmsjé Gauti.
Emmsjé Gauti. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert