Spilling í eftirlitskerfinu

Frá frönsku kjötiðnaðarfyrirtæki. Mikla hneykslan vakti þegar hrossakjöt fannst í …
Frá frönsku kjötiðnaðarfyrirtæki. Mikla hneykslan vakti þegar hrossakjöt fannst í lasagna frá fyrirtækinu Findus árið 2013. AFP

Eftirlitskerfið er spillt að mati Magnúsar Nielsson, eiganda Gæðakokka, sem telur niðurstöður Matvælastofnunar um að ekkert nautakjöt hafi verið í nautaböku fyrirtækisins rangar. Hann sagði fyrirtækið hafa verið hengt á þeim grundvelli þegar mál gegn því var tekið fyrir í Héraðsdómi Vesturlands í morgun.

Í kjölfar hrossakjötshneykslisins sem reið yfir Evrópu í upphafi árs 2013, þar sem hrossakjöt fannst í lasagna sem átti að innihalda nautakjöt, lét Matvælastofnun gera rannsókn á kjötinnihaldi sextán íslenskra matvara. Í ljós kom að ekkert kjöt reyndist vera í nautaböku frá Gæðakokkum í Borgarnesi sem sögð var innihalda 30% nautahakk í fyllingu, sem átti að vera helmingur af þyngd vörunnar.

Mál var höfðað gegn Gæðakokkum, sem nú heitir Kræsingar ehf., í kjölfarið vegna blekkinga upplýsinga um vörur þess og hófst aðalmeðferð þess í Héraðsdómi Vesturlands í morgun. Magnús bar þar að gæðaeftirlit fyrirtækisins hafi verið í góðu lagi áður en málið kom upp en farið hafi verið yfir það og alla verkferla í kjölfar niðurstöðu Matvælastofnunar.

Eðlilegt ef arsenik hefði verið í matvælum

Sækjandi spurði Magnús hvað gæti hafa skýrt að ekkert nautakjöt hafi verið í bökunum. Magnús sagði að við skýrslutöku hjá lögreglu hafi hann sagt að ef niðurstöðurnar væru réttar þá væri eina mögulega skýringin að kjöt hafi ekki hrærst nógu vel í blöndu. Hann hafi trúað því í fyrstu að niðurstöðurnar væru réttar. Á seinni stigum málsins þegar fyrirtækið hafi kannað gæðaeftirlit og verkferla hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að þær væru í raun ekki réttar.

„Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það sé spilling í eftirlitskerfinu og að þetta séu ekki réttar niðurstöður,“ sagði Magnús.

Enginn möguleiki væri á því að ekkert kjöt væri í bökum sem væru hrærðar í 100 L potti með 30 kg af kjöti. Magnús sagðist ennfremur ekki geta sætt sig við að tekið væri eitt sýni úr einni böku. Þá hafi fjölmiðlar fengið að vita um niðurstöðurnar áður en hann fékk upplýsingar um þær. Verið væri að hengja fyrirtækið með þessu.

Þá spurði sækjandi hvort að Magnús teldi að eitthvert svigrúm ætti að vera um auglýst innihald á vörum. Svaraði Magnús því til að það skipti máli um hvað málið snerist. Hefðist fundist eiturefni eins og arsenik í vöru þá hefði að sjálfsögðu átt að kalla vöruna inn. Að taka hins vegar eitt sýni úr einni böku fyndist honum ekki eðlileg vinnubrögð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka