Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun sýslumanns Reykjavíkur í máli karlmanns gegn Íslandsbanka þar sem deilt var um lögmæti verðtryggingar. Málið snerist um fjögurra milljón króna verðtryggt fasteignaveðlán sem maðurinn tók árið 2007.
Leitað var til EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit í málinu og var álit dómsins birt í lok ágúst, líkt og mbl.is hefur áður greint frá. Þar kom meðal annars fram að tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta skilmála í neytendasamningum leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitenda og neytenda.
Í dómnum segir að við mat á réttaráhrifum þess að Íslandsbanki vanrækti að veita manninum þær upplýsingar sem honum bar, svo sem með raunhæfri greiðsluáætlun, verði í upphafi að horfa til þess að ákvæði skuldbréfsins um verðtryggingu voru skýr og fortakslaus sem og alvanaleg á lánamarkaði.
Gat manninum því ekki dulist að það lán sem hann tók hjá bankanum var verðtryggt og bundið vísitölu neysluverðs. Einnig lítur dómurinn til þess að jafnvel þótt fullnægjandi greiðsluáætlun hefði verið sett fram af hálfu Íslandsbanka hefði slík áætlun engu breytt um það að bankanum hefði allt að einu verið heimilt að krefja manninn um fullar verðbætur við þær aðstæður að vísitala hefði tekið breytingum umfram áætlunina.
Þá segir einnig að áður hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að téðir skilmálar gátu ekki talist efnislega ósanngjarnir í skilningi laga. Jafnframt er ekkert komið fram um að þeir hafi verið óeðlilegir með hliðsjón af þeim kjörum sem almennt tíðkuðust á lánamarkaði.
Héraðssdómur taldi að vanræksla Íslandsbanka á því að veita manninum fullnægjandi greiðsluáætlun þegar hann tók lánið hjá bankanum hafi ekki haft slíkar afleiðingar fyrir hagsmuni mannsins að geti leitt til ógildis verðbótaákvæðis lánssamnings mannsins. Kröfu mannsins er því hafnað og staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um fjárnám að kröfu bankans í eignarhluta mannsins.