Fordæmalausar leysingar

Annar heiti potturinn flaut upp á stétt og er eitthvað …
Annar heiti potturinn flaut upp á stétt og er eitthvað skemmdur að sögn Ingólfs. Ljósmynd/Ingólfur Þorleifsson

Töluverðar skemmdir urðu í sundlaugargarðinum á Suðureyri í nótt, þegar gerði hvassan vind og úrkomu. Girðingin umhverfis garðinn fór illa og annar heiti potturinn flaut upp á stétt. Þá var dúkur sem huldi aðra laugina fokinn og sólbekkur kominn út í tjörn við hlið laugarinnar.

„Það var mjög hvasst hérna í nótt og mikil úrkoma og allt á floti,“ segir Ingólfur Þorleifsson, íbúi á Suðureyri, en hann birti myndir af aðkomunni á Facebook í morgun.

„Það var eiginlega bara foss þarna niður hlíðina fyrir aftan sundlaugina og inn í sundlaugagarðinn. Þannig að það var bara allt orðið á floti og komið út í sundlaugina, og eiginlega allt orðið sléttfullt þarna í garðinum,“ segir hann.

„Annar potturinn flaut upp og girðingin er öll mölbrotin. Ég veit svo sem ekki hvernig þetta er í sundlauginni sjálfri, hvort það hefur lekið þangað inn. Ég fór ekki inn, ég sé þetta bara út um eldhúsgluggan hjá mér,“ segir Ingólfur.

Hann segir menn frá Ísafjarðarbæ mætta á staðinn til að skoða skemmdirnar en hann telur tjónið umtalsvert. „Þetta er svolítið leiðinlegt að þetta skuli gerast, því garðurinn var allur tekinn í gegn síðasta sumar. Það var hellulagt upp á nýtt og pottarnir lagaðir og þetta var orðið mjög fínt. Þannig að þetta er ljótt tjón miðað við það.“

Ingólfur segir vetrarveðrið á Suðureyri hafa verið öðruvísi en hann á að venjast. „Þetta er líkara því sem þið þekkið fyrir sunnan, rok og rigning, suðvestanáttir og leiðindi,“ segir hann. Hann segir allan snjó vera að bráðna í þorpinu og allt á floti alls staðar.

Aðspurður segir Ingólfur að ómögulegt hefði verið að sjá tjónið fyrir, enda hafi annað eins ekki gerst í að minnsta kosti 15 ár.

„Þetta eru bara mjög miklar leysingar sem hafa verið hérna í nótt, það bara fór allt á flot. Og vindur með því líka. Það hjálpar ekki,“ segir hann.

Dúkurinn af annarri sundlauginni fauk af og var vöðlaður upp …
Dúkurinn af annarri sundlauginni fauk af og var vöðlaður upp í garðinum. Ljósmynd/Ingólfur Þorleifsson
Girðinginn umhverfis garðinn fór illa, en Ingólfur segir hana hafa …
Girðinginn umhverfis garðinn fór illa, en Ingólfur segir hana hafa verið orðna lúna og að til hafi staðið að endurnýja hana í sumar. Ljósmynd/Ingólfur Þorleifsson
Ingólfur segir að fossað hafi niður hlíðina í leysingunum.
Ingólfur segir að fossað hafi niður hlíðina í leysingunum. Ljósmynd/Ingólfur Þorleifsson
Það fór allt á flot í garðinum.
Það fór allt á flot í garðinum. Ljósmynd/Ingólfur Þorleifsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert