Klakastykki sló út rafmagni

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Norðurá í Borgarfirði flæddi yfir bakka sína í dag og hafnaði af þeim sökum klakastykki á rafmagnsstaur með þeim afleiðingum að stór hluti dalsins missti rafmagn. Eftir um tveggja klukkustunda rafmagnsleysi tókst viðgerðarmönnum að koma rafmagni aftur á.

Samkvæmt upplýsingum frá RARIK þurftu björgunarmenn að ferja viðgerðarhópinn á báti þar sem staurinn var umkringdur um þriggja metra djúpu vatni. Var vinnuaðstaða því mjög krefjandi, en bráðabirgðaviðgerð lauk laust fyrir klukkan 19 í kvöld. 

Vegir eru í sundur

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er Djúpvegur nr. 61, rétt fyrir sunnan Hólmavík, nú lokaður þar sem vegurinn er í sundur. Ekki er búist við að viðgerð ljúki fyrr en um miðjan dag á morgun.

Einnig er Vestfjarðavegur nr. 60 í Vattarfirði lokaður vegna aurskriðu. Vegfarendur eru sérstaklega varaðir við miklum vatnavöxtum þar sem vatn getur farið yfir vegi því ræsi hafa oft ekki undan. 

Norðanlands er vindur enn að aukast og verður hann í hámarki á milli klukkan 18 og 22. Mjög hvasst er nú víða á fjallvegum og sviptivindar á láglendi þar sem hviðurnar geta orðið allt að 35 til 45 m/s á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Snemma í kvöld er búist við 45 til 55 m/s á utanverðum Tröllaskaga og við vestanverðan Eyjafjörð.

Svipaða sögu er að segja um Skagafjörð frá Varmahlíð á Sauðárkrók sem og í Ljósavatnsskarði og Kinn. Þá er einnig spáð byljóttum vindi fram á nótt suðaustanlands, einkum við Hornafjörð og Hvalnes.

Mynd þessi er tekin sunnan við Hólmavík og sýnir stórt …
Mynd þessi er tekin sunnan við Hólmavík og sýnir stórt rof í vegi. Ljósmynd/Tara
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert