Nokkuð hefur verið um útköll björgunarsveita í dag vegna veðurs. Fyrsta útkallið barst um klukkan 10.30 í morgun á Drangsnesi. Þar flæddi bæjarlækurinn yfir bakka sína eftir að ræsi sem á að taka við honum stíflaðist með þeim afleiðingum að mikið vatn rann inn í kjallara frystihússins á staðnum.
Tókst björgunarsveitinni, með góðri samvinnu við Vegagerðina sem sendi gröfu á staðinn, að leysa málið.
Um klukkustund síðar var björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd fengin til að tryggja 15 t bát er var að losna frá bryggju.
Í hádeginu var svo þörf fyrir hjálpfúsar hendur í vatnselgnum á Ísafirði. Þar hefur björgunarsveitin aðstoðað bæjarstarfsmenn og slökkvilið við að ná tökum á ástandinu. Síðdegis bættust svo meðlimir Ernis í Bolungarvík í hópinn með dælur.
Ísafjörður er þó ekki eini staðurinn á Vestfjörðum þar sem vatnið hefur gert usla. Eftir hádegi var björgunarsveitin á Suðureyri kölluð út eftir að flæða fór inn í hús í bænum.
Þegar hún var að ljúka því verki barst tilkynning um að farið væri að flæða inn í kjallara Sunnuhlíðar, sem er verslunarhúsnæði á Suðureyri. Dælingu þar lauk um klukkan 16.00.