„Ég er ansi hræddur um að hér hafi orðið töluvert tjón enda tel ég að vatn hafi flætt inn í marga kjallara,“ segir Ari Sigurjónsson, staðgengill bæjarverkstjóra Ísafjarðarbæjar, en hann hefur, ásamt fjölmörgum öðrum, staðið í ströngu við að dæla vatni upp úr yfirfullum holræsakerfum bæjarins.
Sums staðar var ástandið það slæmt í dag að menn óðu vatn upp að mitti þar sem niðurföll voru yfirfull og flæddi því vatn upp úr holræsakerfum. Hafa starfsmenn Ísafjarðarbæjar því þurft að koma fyrir öflugum vatnsdælum við holræsakerfin sem dælt hafa upp vatni í allan dag. Vatnið er svo leitt út í sjó með slöngum.
Aðspurður segir Ari vatnselginn á götum úti ekki hafa aukist undanfarnar klukkustundir. „Það hefur ekki aukist en ég hélt þó um tíma að við værum að ná betri tökum á ástandinu. Það hættir hins vegar ekki að pípa úr þessu blessaða fjalli,“ segir hann og bætir við að vatnsstraumur sé því enn verulegur.
„Við erum bara í stöðugu stríði hérna og ætlum okkur að vinna þetta stríð,“ segir Ari en þeir sem koma að störfum á Ísafirði eru starfsmenn bæjarins, slökkviliðs-, lögreglu- og björgunarmenn.
Enn lekur vatn inn í kjallara sjúkrahússins á Ísafirði og eru slökkviliðsmenn því þar að störfum. Hafa þeir unnið að því að dæla upp vatni síðan klukkan sex í morgun. Slökkviliðsmenn eru einnig við störf í nokkrum íbúðarhúsum við Túngötu.
Búið er að koma fyrir sandpokum á nokkrum stöðum í bænum í von um að beina vatni frá húsum og öðrum mannvirkjum. Er nú unnið að því að styrkja betur sandpokahrúgu við hús á Urðarvegi.
Vert er að geta þess að Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir stormi, meira en 20 m/s, um landið norðan- og austanvert fram eftir morgundegi.
Sjá má fleiri myndir frá Ísafirði í fyrri frétt mbl.is