Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar, segist ekki missa svefn þó að krafa um að uppgjör fari fram innan flokksins á næsta flokksþingi.
„Sveinbjörg Birna, ég verð að spyrja þig,“ spurði Sigurjón M. Egilsson, þáttastjórnandi Sprengisands á Bylgjunni í morgun.
„Já, skjóttu!“ sagði Sveinbjörg en hún var mætt í morgunþáttinn ásamt Halldóri Halldórssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins og S. Birni Blöndal, fulltrúa Bjartrar framtíðar.
„Eitthvað fólk í Framsóknarflokknum hefur kallað eftir uppgjöri á næsta flokksþingi. Vegna framgöngu þinnar og Guðfinnu sem starfar með þér í borgarstjórn. Það er farið fram á mikið.“
Sveinbjörg sagði svo ekki vera, hún teldi þetta eðlilega kröfu. „Er þetta ekki eðlileg krafa að fólk fái að segja sína skoðun og ég skil alveg framsóknarmenn að einhverju leyti. Það hefur gustað mikið um okkur. Okkur hafa verið lögð orð í munn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.“
Sveinbjörg sagði ósætti í öllum flokkum. „En það er nú meira um ykkur en svona almennt,“ sagði Sigurjón þá.
„Veistu, ég er alla vega ekki að missa svefn yfir þessu eða hef ekki gríðarlegar áhyggjur.“
Sigurjón spurði hvort hún sæi eftir einhverju sem hún hefði gert. „Nei, ég er búin að gera það allt upp. [...] Ég held því áfram að vinna vinnuna mína.“
Sveinbjörg vildi svo að S. Björn Blöndal leiðrétti ákveðið mál. „Í upphafi nýs kjörtímabils komu þeir fram með yfirlýsingar um það að við ættum enga fulltrúa í nefndum og ráðum borgarinnar. Þetta hefur meirihlutinn aldrei leiðrétt. Þó að hann viti nákvæmlega hver staðan er.“
Björn kom hins vegar af fjöllum. „Ég skil ekki hvað þú ert að segja, fyrirgefðu.“
„Það er nú ekki í fyrsta skipti, og verður ekki í það síðasta!“ sagði Sveinbjörg þá og hló og Björn tók undir það.
Talið barst svo að ráðningu Gústafs Níelssonar í mannréttindaráð borgarinnar fyrir hönd Framsóknar og flugvallarvina. Sigurjón rifjaði upp ummæli Gústafs sem sagði að Sveinbjörgu hefði þótt skrif sín málefnaleg.
Björn sagði það rétt Framsóknar að eiga fulltrúa í öllum sjö manna nefndum borgarinnar sem og áheyrnarfulltrúa í öðrum nefndum.
Björn sagði að samstarfið við Framsókn gengi „svona og svona“. Benti Björn á að Sveinbjörg hefði lýst því yfir, eins og fram hefði komið, að henni fyndust skrif Gústafs Níelssonar málefnaleg.
„Allir vita hvað hann er að skrifa,“ sagði Björn. „Þar er auðvitað alveg ljóst á hvaða leið framsóknarmenn og flugvallarvinir í borginni eru.[...] Það eru allir að sjá að þetta gengur ekki upp. Það að vera að daðra við þessa hluti sem hefur verið rætt um þetta er auðvitað ekki boðlegt og þetta vill enginn,“ sagði S. Björn.
„Er Gústaf ekki bara ennþá í mannréttindaráði? Hann sagði ekki af sér. Bara skemmtileg lögfræðileg pæling.
Sveinbjörg sagðist vera komin með alveg nóg af því að heyra „fulltrúa Besta flokksins“ vera eilíft að halda því fram að hún sé í einhvers konar daðri. „Því er bara lokið af þeirra hálfu á eftir þessu útvarpsviðtali. Þeir geta ekki endalaust komið fram með sömu tugguna.“