„Einhvern veginn finnst mér að þið vitið meira en þið eruð að segja,“ sagði Sigurjón M. Egilsson, stjórnandi þáttarins Sprengisands á Bylgjunni í morgun. Viðmælendur hans voru þrír borgarfulltrúar og umræðan snérist um ferðaþjónustu fatlaðra.
Í þáttinn voru mætt þau S. Björn Blöndal, Bjartri framtíð, Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina.
Rétt áður en Sigurjón sagði borgarfulltrúana ekki vera að segja alla söguna hafði Sveinbjörg verið að ræða um hversu ferðaþjónusta fatlaðra væri viðkvæm og sagðist hlakka til að fá svör frá meirihlutanum við spurningum sjálfstæðismanna í borgarstjórn, m.a. um hvort tölvukerfið sem notað væri í þjónustunni hefði verið þróað með fatlaða einstaklinga í huga. „Ein spurningin er um hver veitti ráðgjöf varðandi kerfið,“ skaut Halldór þá inn í.
„Þú veist svarið, komdu með það,“ sagði Sigurjón.
„Nei, ég veit það ekki,“ sagði Halldór. Sigurjón hikaði þá og hló. „Af hverju kemurðu þá með þennan?“ spurði Sigurjón. „Ég er bara að tengja það við það sem Sveinbjörg sagði.“
Sveinbjörg greip þá boltann og sagði: „Björn Blöndal hlýtur að vita þetta.“
„Björn, er það stóra málið?“ spurði Sigurjón. „Ég spyr, ég spyr.“
Björn sagði að Strætó hefði tekið utanumhaldið að sér. „Strætó var búinn að vera með þessa þjónustu fyrir Reykjavíkurborg frá því í kringum 1980. Það er ekki eins og þeir komi alveg kaldir að málum þar. Þeim er síðan falið eftir miklar vangaveltur, þá er tekin sú ákvörðun m.a. vegna þess að hagsmunasamtökin töldu mikilvægt að Strætó kæmi áfram að þessu, að þeim er falin umsjón með þessu, útboðinu og öðru slíku. Ég er ekki með á takteinum hver nákvæmlega veitti ráðgjöfina...“
Sigurjón greip þá orðið og spurði: „Er einhver grunur um að það séu tengsl við kjörna fulltrúa?“
Halldór var til svara og sagðist ekki hafa neina ástæðu til að ætla það. Þetta myndi allt koma í ljós í úttekt á málinu. „En að sjálfsögðu mun þetta allt koma í ljós.“
Fljótlega bætti Sigurjón við: „Einhvern veginn finnst mér eins og þið vitið meira en þið viljið segja.“ Halldór tók fyrir það og sagðist ekki „ætla að fara út í einhverjar sögusagnir“. Halldór lagði áherslu á að brýnna væri að ná tökum á þeim bráðavanda sem upp hefði komið. Björn Blöndal sagðist hafa trú á að nú væri verið að ná tökum á þessu. „Ég hef ástæðu til að ætla að við munum ná tökum á þessu.“
Neyðarstjórn er nú að störfum vegna málsins undir forystu Stefáns Eiríkssonar, sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. „Með því að skipa þessa neyðarstjórn þá er pólitísk ábyrgð tekin af þeim pólitísku fulltrúum sem sitja í stjórn Strætó í dag og færð yfir á embættismenn,“ sagði Sveinbjörg. „Þeir eru búnir að setja hausinn í gapastokkinn ef illa fer eftir fjórar vikur. En ég vona að þetta gangi allt saman upp.“
Björn Blöndal svaraði fyrir sig af ákveðni: „Þetta er kolrangt. Þessi neyðarstjórn virkar allt öðruvísi heldur en stjórn í fyrirtæki. Þessi stjórn fer inn í aðgerðir. Hún fer inn á gólfið, í stjórnun. Það er ekki verið að taka pólitíska ábyrgð af neinum. Það er kolrangt.“
Frétt mbl.is: Sveinbjörg missir ekki svefn