„Við byrjuðum klukkan fimm í morgun en þá var byrjað að renna vatn inn í kjallarann á sjúkrahúsinu,“ segir Ari Sigurjónsson, staðgengill bæjarverkstjóra Ísafjarðarbæjar, en mikið vatnsveður er nú í bænum og hefur vatn víða flætt inn í hús.
Á þessari stundu er ekki ljóst hvort um mikið tjón er að ræða enda eru menn enn að störfum víða um bæ. Hópur slökkviliðsmanna er nú að störfum við sjúkrahúsið á Ísafirði og hafa þeir verið að frá því klukkan sex í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á Ísafirði er ekkert útlit fyrir að ástandið batni í bráð og hafa menn og dælur vart undan vatnselgnum.
Sums staðar er ástandið það slæmt að menn vaða vatn upp að mitti auk þess sem niðurföll eru víða yfirfull og flæðir því vatn upp úr holræsakerfum bæjarins.
„Það er bara allt fullt af vatni hérna. Ég er búinn að vinna í áhaldahúsinu í tuttugu ár og hef aldrei nokkurn tímann séð aðrar eins leysingar,“ segir Ari og bætir við að starfsmenn bæjarins séu nú búnir að koma fyrir sandpokum á vissum stöðum í bænum í von um að beina vatni frá húsum og öðrum mannvirkjum. Það gengur hins vegar erfiðlega.
Þeir sem nú koma að störfum á Ísafirði eru starfsmenn bæjarins, slökkviliðs- og björgunarmenn auk þess sem dælubíll á vegum Gámaþjónustunnar veitti aðstoð um tíma. Hann hefur nú hins vegar verið sendur í verkefni á Súgandafirði, en þar glíma menn einnig við miklar leysingar.