Slökkviliðið á Ísafirði hefur staðið í ströngu í dag sökum mikilla leysinga. Hafa slökkviliðsmenn verið við dælingu vatns frá því snemma í morgun og eru enn að. „En við erum að sjá fyrir endann á þessu núna,“ segir Þorbjörn Sveinsson, slökkviliðsstjóri í samtali við mbl.is.
Þorbjörn segir að slökkviliðið hafi verið að störfum bæði á Ísafirði og í Hnífsdal en lekið hefur inn í fjölmörg heimili en einnig inn í kjallara Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða.
„Það varð sem betur fer ekkert tjón á sjúkrahúsinu, við náðum að halda þurru þar að mestu,“ segir Þorbjörn og bætir við að flestar stórar byggingar á Ísafirði hafi sloppið við vatnstjón.
„En við höfum aðallega verið að dæla úr kjöllurum íbúðarhúsa í dag. Við erum enn að dæla og það eru þrír eða fjórir kjallarar sem bíða. Ég veit ekki hversu mikið tjón hlaust í dag en ég get til dæmis ímyndað mér að það sé mikið tjón á íþróttavöllunum hjá okkur. Svo flæddi mikið við Áhaldahúsið og Orkubúið en ég hef ekki heyrt hvort vatnið komst inn.“
Hann segir að á sumum stöðum hafi verið gífurlega mikið vatn, allt að 30 til 40 sentímetra djúpt og sumstaðar meira. „Það er nú ekki oft sem það kemur svona mikið vatn en við svona asahálku getur þetta gerst.“
Fyrri frétt mbl.is.