Dæling hafin að nýju á sjúkrahúsinu

Stórt stöðuvatn myndaðist á íþróttavellinum og þrjá haugsugur voru fengnar …
Stórt stöðuvatn myndaðist á íþróttavellinum og þrjá haugsugur voru fengnar til að dæla vatninu burt. bb/ Sigurjón J. Sigurðsson

Slökkviliðið á Ísafirði var kallað út að nýju í morgun til þess að dæla upp vatni úr kjallara sjúkrahússins. Ljóst er að vatnstjónið er töluvert á Ísafirði en um hversu háar fjárhæðir er að ræða liggur ekki fyrir. 

Mikið vatnstjón hefur orðið á Ísafirði undanfarinn sólarhring sökum mikilla leysinga og bæjarstarfsmenn, slökkvilið, lögregla, björgunarsveitamenn og bændur hafa staðið í ströngu við að að dæla vatni upp úr kjöllurum og yfirfullum holræsum. Verkið hófst klukkan fimm í gærmorgun þegar bæjarstarfsmenn byrjuðu að dæla upp úr kjallaranum á sjúkrahúsinu, en þetta eru með mestu leysingum sem hafa sést í manna minnum. Öll ráð voru notuð til þess að beina vatnselgnum frá húsum og meðal annars voru settir sandpokar víðs vegar um bæinn til að reyna að hafa stjórn á flæðinu, að því er segir í frétt Bæjarins besta.

„Við erum búnir að vera að dæla í alla nótt og frá því klukkan fimm í gærmorgun,“ segir Ari Sigurjónsson, staðgengill bæjarverkstjóra Ísafjarðarbæjar, í viðtali við BB.

„Við vorum hættir að dæla við sjúkrahúsið en svo jókst þetta áðan svo við erum byrjaðir að dæla aftur. Það er ekkert komið í ljós með tjón ennþá en það rann t.d. inn í flesta kjallara í Túngötu, eitthvað á Mánagötu og svo allavega tvö hús á Urðarvegi en ég veit ekki hvað það var mikið.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert