Vindur er smám saman að ganga niður, þó varhugaverðir sviptivindar leynist enn á stöku stað til hádegis á Vestfjörðum, Norðurlandi og eins suðaustanlands, samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.
„Kólnar, einkum vestantil, og frystir á fjallvegum og eins í byggð á Vestfjörðum. Von er á lægðabylgju síðdegis úr suðvestri og með henni hvessir aftur. Hríðarveður verður víðast ofan 100-200m um landið vestanvert, en slydda eða bleytusnjór á láglendi. Frá því á um kl. 16-17 og fram undir miðnætti,“ segir í tilkynningu.
Djúpvegur nr 61 rétt fyrir sunnan Hólmavík ( við Skeljavík) er nú lokaður þar sem vegurinn er í sundur. Sami vegur er líka í sundur yst í Staðardalnum, við gatnamót Djúpvegar og Drangsnesvegar.
Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu greiðfærir þó er eitthvað um hálkubletti í uppsveitum Suðurlands.
Á Vestfjörðum eru vegir að verða auðir en snjóþekja og éljagangur er á Þröskuldum en Hálka og skafrenningur er á Gemlufallsheiði. Óveður er á Mikladal en þæfingsfærð og stórhríð á Hálfdáni. Vegur 61 við Skeljavík, rétt sunnan við Hólmavík er lokaður þar sem stórt skarð hefur myndast í veginn og er reiknað með að viðgerð geti tekið töluverðan tíma.
Vegir eru víða greiðfærir á Norðurlandi en þó er eitthvað um hálkubletti. Óveður á Víkurskarði og Mývatns- og Möðrudalsöræfum.
Á Austurlandi er víða orðið greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað. Greiðfært er einnig að mestu með suðausturströndinni en óveður er á Hvalnesi.