Hæstiréttur hefur stytt frest verjenda í Marple-málinu svonefnda til að skila greinargerðum. Í stað þess að hafa frest til 1. nóvember nk. hefur rétturinn gert þeim að skila eigi síðar en 15. júlí nk.
Í Marple-málinu eru Hreiðar Már og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik, Magnús er ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum Hreiðars Más og Guðnýjar Örnu og Skúli Þorvaldsson er ákærður fyrir hylmingu.
Auk þess er krafist upptöku fjár hjá félögunum Marple Holding S.A. SPF, BM Trust S.A. SPF, Holt Holding S.A., SKLux S.A. og Legatum Ltd. Öll eru félögin með lögheimili í Lúxemborg fyrir utan Legatum sem er með lögheimili á Möltu.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði veitt verjendum frest til 1. nóvember sökum þess mikil vinna bíði verjendanna á komandi vikum og mánuðum í öðrum málum tengdum sömum sakborningum.
Á þetta féllst hins vegar Hæstiréttur ekki og taldi að upptökukrafa í ákæru, sem beinist gegn fyrrnefndum félögum, valdi því að hraða beri rekstri málsins eins og kostur er, þ.e. þar sem fjármunir í þeirra eigu voru kyrrsettir.