„Þetta sýnir þörfina fyrir lög varðandi staðgöngumæðrun,“ segir Soffía Fransiska Rafnsdóttir Hede, talskona samtakanna Staðganga, um mál íslenskra hjóna sem hafa stefnt íslenska ríkinu og þjóðskrá til að fá stöðu sína viðurkennda.
Hjónin komu með tvíbura til Íslands í maí 2014, sem þau höfðu eignast með aðstoð staðgöngumóður í Bandaríkjunum. Konunni er þó neitað um staðfestingu á því að hún sé móðir barnanna í lagalegum skilningi en faðerni barnanna er viðurkennt.
Þetta er fyrsta mál af þessu tagi sem höfðað er hér á landi. Önnur hjón sem einnig eignuðust tvíbura með aðstoð staðgöngumóður í Bandaríkjunum, eru með sambærilegt mál í undirbúningi.
„Það er sorgleg staðreynd að langflest lagaleg mál varðandi staðgöngumæðrun eru mál við ríkið. Það eru yfirleitt allir sáttir við framkvæmdina en ríkin viðurkenna ekki foreldraréttinn,“ segir Soffía, og bendir á mál hjóna í Frakklandi, sem hafa barist fyrir þessari staðfestingu í tíu ár.
Eins og staðan er í dag þarf móðirin að ættleiða barnið, en slíkt getur tekið nokkur ár. „Þetta er mjög alvarlegt fyrir stöðu barnsins því það er þá í forsjá aðila sem hefur ekkert lagalegt vald til að taka ákvarðanir fyrir barnið og ekki forræði yfir því. Er það hagur barnsins?“ segir Soffía.
Staðgöngumæðrun er ólögleg á Íslandi en frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hefur verið lagt fram til umsagnar. Að sögn Soffíu er mikilvægt að málefnaleg umræða fari fram þegar frumvarpið verður tekið fyrir síðar í mánuðinum, og rammi verði settur.
„Það er mjög mikilvægt að það verði sett lög um þetta. Íslendingar eru að gera þetta og það hefur verið ljóst í einhvern tíma, svo það þarf skýran lagalegan ramma í kringum það.“
Samkvæmt drögunum að frumvarpinu verður ennþá ólöglegt að fara erlendis og greiða fyrir aðstoð staðgöngumóður. Reykjavík vikublað greindi frá því að Útlendingastofnun vissi um dæmi þess að fólk sem lét erlenda staðgöngumóður ala sér barn hafi reynt að leyna því þegar komið var með barnið til Íslands.
„Þetta er mjög sorglegt þegar allir eru sáttir við framkvæmdina og allt hefur gengið vel. Það er alveg ömurlegt að þurfa að standa í lagalegum málum sem þessum,“ segir Soffía.