Tugir nemenda gistu í rútu í nótt

Vatn yfir öllu - þessi mynd var tekin á Ísafirði …
Vatn yfir öllu - þessi mynd var tekin á Ísafirði í gær mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson

Rúmlega fjörutíu nemendur úr Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) ásamt bílstjóra og þremur fararstjórum þurftu að gista í rútu við Staðará í Steingrímsfirði í nótt en vegurinn þar er í sundur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði er vinna hafin við að reyna að laga veginn svo þau komist heim.

Veður er orðið skaplegt fyrir vestan og hefur ekki rignt á Ísafirði síðan í gærkvöldi. Slökkvilið Ísafjarðar hefur staðið í ströngu í heilan sólarhring við að dæla vatni úr heimahúsum og fyrirtækjum. Á sjúkrahúsinu á Ísafirði lauk dælingu í nótt en þar hafði flætt inn frá því í gærmorgun.

Spá 45-55 m/s í hviðum

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands má búast við mjög snörpum en staðbundnum vindhviðum við fjöll á Norðurlandi og undir Vatnajökli, allt að 45-55 m/s fram yfir hádegi.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðvestan 15-23 m/s en 10-18 m/s SV-til. Súld eða rigning með köflum en yfirleitt þurrt á A-landi. Kólnar smám saman. Slydduél og síðar él um landið V-vert í dag og dregur úr vindi um tíma síðdegis. Hvessir aftur seint í kvöld.

Varað við vatnavöxtum

Djúpvegur nr 61 rétt fyrir sunnan Hólmavík (við Skeljavík) er nú lokaður þar sem vegurinn er í sundur. Sami vegur er líka í sundur yst í Staðardalnum, við gatnamót Djúpvegar og Drangsnesvegar, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Búið er að opna veginn um Holtavörðuheiðina að nýju.

Vegfarendur eru varaðir við miklum vatnavöxtum í dag, vatn getur farið yfir veg þar sem ræsi hafa ekki undan.

Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu greiðfærir, þó er eitthvað um hálkubletti í uppsveitum Suðurlands. 

Á Vestfjörðum eru vegir að verða auðir en snjóþekja er á Þröskuldum. Óveður er á Mikladal og Hálfdán en þar er líka krapi á vegi. Vegur 61 við Skeljavík, rétt sunnan við Hólmavík, er lokaður þar sem stórt skarð hefur myndast í veginn og er reiknað með að viðgerð geti tekið töluverðan tíma.

Vegir eru víða greiðfærir á Norðurlandi en þó er eitthvað um hálkubletti. Óveður á Siglufjarðarvegi og á Mývatnsöræfum.

Á Austurlandi er víða orðið greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað. Greiðfært er einnig að mestu með suðausturströndinni en óveður er á Hvalnesi.

Á Feyki kemur fram að vegurinn fór í sundur rétt norðan við vegamótin þar sem vegur nr 61, Vestfjarðavegur og vegur nr 645, Drangsnesvegur, mætast.

Þar kemur fram að hópurinn úr FNV hélt vestur á föstudaginn. Vegna veðurs í gær var lagt af stað laust fyrir kvöldmat frá Ísafirði en stefnan tekin á Hólmavík, þar sem búið var að gera ráðstafanir með mat og gistingu fyrir hópinn. Það var svo rétt áður en rútan kom að áðurnefndum vegamótum að vegurinn brast og mun vera 7-10 metra breiður skurður og mikill straumur í vatninu sem flæðir þar yfir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert